Sandskel, Mya arenaria
Sandskel er algeng í Evrópu og er talið að hún hafi borist þangað á 13. öld frá austurströnd Norður-Ameríku þar sem náttúruleg heimkynni tegundarinna eru. Fyrsti fundur sandskeljar við Ísland var í Hornafirði árið 1958 en skelin hefur fundist víða eftir það, hefur náð hér fótfestu en er alltaf í tiltölulega lágum þéttleika. Sandskelin hefur að öllum líkindum borist til Íslands með straumum og/eða kjölfestuvatni skipa og líklegast frá Evrópu. Erfitt er að greina áhrif landnáms sandskeljar við Ísland á lífríkið en skelin er að öllum líkindum í samkeppni við aðrar skeljategundir á sömu svæðum um fæðu og pláss og gæti því mögulega orðið ágeng með tímanum. Í Eystrasalti og í Danmörku er sandskel talin ágeng tegund og hefur valdið miklum breytingum á lífríki síðustu áratugina. Heimild |
|
Hjartaskel, Cerastoderma edule
Hjartaskel er útbreidd víða í Norðaustur-Atlantshafi en fannst fyrst við Ísland í Faxaflóa árið 1948. Útbreiðslan hefur aukist mikið síðan þá en er þó bundin við Vesturland. Hjartaskel hefur að öllum líkindum borist til landsins frá náttúrulegu heimkynnum sínum í Vestur-Evrópu með straumum og/eða kjölfestuvatni skipa. Erfitt er að meta áhrif tegundarinnar á lífríkið þar sem skelin finnst alltaf í tiltölulega litlu magni en gæti samt sem áður verið í samkeppni við aðrar samlokur á svæðunum um fæðu og pláss, eins og t.d. sandskel, kúfskel og krókskel og er því mögulega ágeng. Heimild |
|