|
Í dag kom út vísindagrein um skelsýkingu í grjótkrabba (Cancer irroratus) í vísindaritinu NeoBiota. Um nokkur tímamót er að ræða, þar sem hér er í fyrsta sinn greint frá skelsýkingu í krabbadýri við Íslandsstrendur. Rannsóknin var unnin í samstarfi Náttúrustofu Suðvesturlands, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Rannsóknadeildar fisksjúkdóma á Keldum og Ross University School of Veterinary Medicine.
Greinin lýsir umfangsmikilli rannsókn sem fór fram í Hvalfirði á árunum 2017 til 2023, þar sem 5.818 einstaklingar af tegundinni voru skoðaðir. Niðurstöðurnar sýna að skelsýkingin jókst hratt eða úr 47% árið 2017 í 85% árið 2023. Sýkingin veldur niðurbroti á skel krabbans og tengist bæði kítínbrjótandi bakteríum og svepplíkum sjúkdómsvaldi. Greining sýna úr sárum sýndi blandaðar bakteríusýkingar úr níu tegundum auk svepplíkrar örveru sem fannst í öllum sýktum dýrum. Þetta bendir til þess að sýkingin stafi af samverkandi áhrifum. Orsakir þess að faraldur af þessari stærðargráðu hafi komið upp eru ekki þekktar, en niðurstöðurnar vekja áhyggjur og krefjast áframhaldandi rannsókna. Greinina má nálgast með því að smella á myndina.
0 Comments
|
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
October 2025
Categories |