Grein um hinn framandi sjávarsnigil svartserk kom út í dag í vísindaritinu Journal of the Marine Biological Association of the United Kingdom, en um er að ræða samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Náttúrustofu Suðvesturlands.
Eggjamassar úr óþekktu lindýri hafa fundist á Suðvesturlandi Ísland síðan 2020, en það var ekki fyrr en í ágúst 2023 sem fullorðnu lífverunni sjálfri var safnað. Formfræðileg greining á bæði fullorðnum einstaklingum og eggjamössum bentu til að um væri að ræða tegundina Melanochlamys diomedea, en tegundin hefur fengið nafnið svartserkur á íslensku. Þessi greining var svo endanlega staðfest erfðafræðilega með COI, H3 og 16S rRNA vísum og jafnframt landnám nýrrar tegundar í Norður-Atlantshafi. Meðlimir Melanochlamys ættkvíslarinnar hafa til þessa aðallega fundist í Indó-Kyrrahafssvæðinu og Kyrrahafinu, aðeins ein tegund er þekkt þar utan og finnst á Madeiraeyjum, Kanaríeyjum og Cape Verde í Atlantshafi. Þekkt náttúruleg útbreiðsla sjávarsnigilsins svartserks nær frá Alaska til Kaliforníu Kyrrahafsmegin í Norður-Ameríku og lifir að jafnaði í fínkornóttum botni í fjöru og neðan hennar. Ekki er vitað hvernig tegundin barst til Íslands. Líklegast þykir þó að tegundin hafi borist hingað með sjóflutningum, annað hvort með kjölfestuvatni eða sem áseta á skipum. Greinina má nálgast með því að smella á myndina.
0 Comments
Í dag lauk hinni árlegu bjargfuglavöktun Náttúrustofu Suðvesturlands. Krýsuvíkurberg er í dag eina fuglabjargið á suðvesturhorninu sem fellur undir árlega vöktun og er jafnframt það langstærsta. Bjargfuglavöktunin gengur þannig fyrir sig að um miðjan júní eru teknar myndir á föstum sniðum og út frá myndunum er skráður fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og svartfugla. Einnig er talinn fjöldi svartfugla á sjó á viðkomandi stað til að fá samanburð á hlutfalli tegunda sem sjást í bjargi. Á þeim svæðum sem falla undir fasta vöktun á landinu (eins og Krýsuvíkurberg) er svo farið er aftur seinna á varptíma til að áætla varpárangur ritu. Árleg bjargfuglavöktunin fer fram víðsvegar um land í samstarfi náttúrustofa og hefur Náttúrustofa Norðausturland haft yfirumsjón með verkefninu. Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins gefur að líta grein um sindraskel við Ísland, en þau Sindri Gíslason og Joana Micael starfsfólk stofunnar eru meðal höfunda greinarinnar.
Greinin segir frá fyrstu staðfestu eintökum sindraskeljar hér við land og útbreiðslu tegundarinnar. Fundurinn er um margt áhugaverður því tegundin hefur hingað til aðeins fundist á Nýfundnalandi, en þar var tegundinni fyrst lýst árið 2012. Hér er því um fyrsta fund utan náttúrulegra heimkynna tegundarinnar. Sindraskelin hefur að öllum líkindum borist til Íslands á lirfustigi með kjölfestuvatni skipa. Miðað við stærð eintaka sem fundust strax í upphafi er líklegt að tegundin hafi borist til landsins a.m.k. 5-10 árum áður eða á árunum 2010-2015. Í ljósi þess að tegundin er farin að fjölga sér og dreifast má gera ráð fyrir að hér sé nú lífvænlegur stofn sem komi til með að dreifast hratt með ströndum landsins. Greinin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunar, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. En þess má geta að Náttúrustofa Suðvesturlands hefur umsjón með vöktun og rannsóknum sindrskelja við Ísland og má lesa betur um verkefnið HÉR. Við hvetjum svo fólk eindregið til að kynna sér Náttúrufræðinginn en nýjasta hefti hans hverju sinni fæst í lausasölu í öllum bókabúðum Pennans Eymundsson. Sjón er sögu ríkari. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
November 2024
Categories |