Grein um tegundaflutning með sjávarrusli kom út í dag í vísindaritinu Ocean and Coastal Research. Um er að ræða metnaðarfullt rannsóknarverkefni sem Holly I.A. Solloway vann í meistaranámi sínu við Háskólasetur Vestfjarða með leiðbeinendum sínum þeim Joana Micael og Sindra Gíslasyni hjá Náttúrustofu Suðvesturlands.
Meðfylgjandi er þýðing á ágripi greinarinnar: "Rusl í hafi er orðið alþjóðlegt umhverfisvandamál með vaxandi vísbendingum um áhrif þess á höf og strandsvæði heimsins. Í þessari rannsókn er sjónum beint að sjávarrusli sem flutningsmáta fyrir ásetutegundir (e. fouling species) sem og dreifingu og samsetningu þess á þremur landssvæðum - Suðvesturlandi, Vestfjörðum og Norðausturlandi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að plastrusl var algengasta gerðin af sjávarrusli hvort sem það var með ásetur eða ekki. Uppruni þess rusls sem fannst á ströndum var aðallega af landrænum uppruna, en það rusl sem hafði ásetur var aðallega upprunnið úr sjávartengdum iðnaði. Á þeim átta rannsóknarsvæðum sem skoðuð voru fundust yfir 79.000 einstaklingar og 92 tegundir á rusli í fjörum. Á Suðvesturlandi var bæði hæsti þéttleiki rusls og mest af ásetutegundum á rusli. Hins vegar var mest fjölbreytni og tegundajafnræði á Vestfjörðum. Ásetutegundir úr alls sex fylkingunum voru greindar, þ.e. liðormar, liðdýr, mosadýr, seildýr, holdýr og lindýr. Holdýr voru algengustu áseturnar á suðvestur- og norðaustursvæðum. Hins vegar voru liðormar með hæsta ásetuhlutfallið á Vestfjörðum. Tölfræðileg marktæk tengsl voru einnig greind á milli: tegundaauðgi og svæða, þéttleika og svæða, efnisgerðar og yfirborðsgrófleika- og þykktar. Niðurstöðurnar sýna hvernig tegundir geta fluttst með sjávarrusli milli svæða. Undirstrikar rannsókn þessi þörfina fyrir áframhaldandi vöktun á sjávarrusli við Ísland og mikilvægi þess að innleiða árangursríkrar stjórnunaraðferðir til að draga úr áhrifum þess á lífríki sjávar og stranda." Greinin er í opinni útgáfu og má nálgast HÉR.
0 Comments
|
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
November 2024
Categories |