|
Í dag lauk hinni árlegu bjargfuglavöktun Náttúrustofu Suðvesturlands. Krýsuvíkurberg er í dag eina fuglabjargið á suðvesturhorninu sem fellur undir árlega vöktun og er jafnframt það langstærsta. Töluverðar sveiflur hafa verið í bjargfuglastofnum hér við land síðan vöktun hófs og oft ólíkt milli landsvæða og tegunda. Á Reykjanesskaga hafa sveiflurnar verið mestar hjá ritu. Rituungatalningar úr nýlokinni vöktun benda til óbreytts ástands frá því í fyrra en þá hafði varpárangur skyndilega versnað eftir góða fjögurra ára uppsveiflu áranna 2020-2023 (sjá meðfylgjandi mynd). Heildarniðurstöður bjargfuglatalninga munu birtast síðar þegar talið og greint hefur verið af myndum og gögn yfirfarin. Bjargfuglavöktunin gengur þannig fyrir sig að um miðjan júní eru teknar myndir á föstum sniðum og út frá myndunum er skráður fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og svartfugla. Einnig er talinn fjöldi svartfugla á sjó á viðkomandi stað til að fá samanburð á hlutfalli tegunda sem sjást í bjargi. Á þeim svæðum sem falla undir fasta vöktun á landinu (eins og Krýsuvíkurberg) er svo farið er aftur seinna á varptíma til að áætla varpárangur ritu. Árleg bjargfuglavöktunin fer fram víðsvegar um land í samstarfi náttúrustofa og hefur Náttúrustofa Norðausturland yfirumsjón með verkefninu á landsvísu.
0 Comments
Leave a Reply. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
October 2025
Categories |