Átjánda vöktunarár grjótkrabba í Faxaflóa er nú hafið. Náttúrustofan og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum halda utan um vöktunina. Byggist vöktunin á gildruveiðum fullorðinna krabba og eins á svifsýnatökum með háfum til að fylgjast með fjölda lirfa í uppsjó. Ljóst er á gildruveiðum að grjótkrabbinn er hvergi að gefa eftir og er sem fyrr ráðandi í afla, með 97% aflahlutdeild. Hér að neðan má sjá myndir úr fyrsta leiðangri þessa vöktunarárs.
0 Comments
Um liðna helgi var farið í merkingarleiðangur á vegum Seatrack verkefnisins í Melrakkaey á Breiðafirði. Melrakkey er friðlýst smáeyja út af Grundarfirði og nýtur verndar út af fuglalífi sínu, þ.e. sem einstakt varpland hvítmáfs og svartbaks. Óheimilt er að fara í eyna án leyfis Umhverfisstofnunar og er eyjan jafnframt innan verndarsvæðis Breiðafjarðar sem verndað er með sér lögum. Markmið leiðangursins var að setja út staðsetningartæki á hvítmáfa og toppskarfa. En fylgst hefur verið með tegundunum frá 2015 í eyjunni þegar Náttúrustofan hóf þar fyrst rannsóknir á vegum Seatrack. Í ár voru settir út 16 staðsetningartæki á toppskarfa af þremur mismunandi gerðum og GPS senditæki á fimm hvítmáfa. Leiðangurinn gekk með eindæmum vel og náðist að setja út öll tækin. Um ákveðin tímamót var líka að ræða þar sem þetta var í fyrsta skipti sem GPS senditæki eru sett á máfa hér á landi. Fram að þessu hafa dægurritar (e. geolocator) alfarið verið notaðir, en þeir eru mun ónákvæmari. Því verður nú í fyrsta skipti hægt að fylgjast með hegðun og fari þeirra máfategunda sem merktar verða árið um kring með mun meiri nákvæmni en áður hefur verið mögulegt. Leiðangurinn skipuðu þau Sunna Björk Ragnarsdóttir (Náttúrufræðistofnun), Gunnar Þór Hallgrímsson (Háskóli Íslands) og Sindri Gíslason (Náttúrustofa Suðvesturlands) Verkefnið er í dag unnið í góðu samstarfi þessara þriggja stofnanna, en til gamans má nefna að bæði Sunna og Gunnar eru fyrrum starfsmenn Náttúrustofunnar og voru það þegar verkefnið var sett á laggirnar.. Nánar má lesa um Seatrack verkefnið HÉR. Í dag þann 22. maí er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni.
Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða tilveru okkar og framtíðar. Verndun hennar er eitt mikilvægasta verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir því líffræðileg fjölbreytni er grundvöllur lífsgæða okkar. Ótal auðlindir og náttúrulegir ferlar sem okkur eru lífsnauðsynlegir byggjast á að hún sé til staðar. Því miður er staða líffræðilegrar fjölbreytni á jörðinni í dag alvarleg. Ástæðan er að henni hefur hnignað hratt á sl. öld fyrir tilstuðlan athafna mannsins s.s. með eyðingu náttúrulegra búsvæða, útbreiðslu framandi ágengra tegunda, mengun og ofnýtingu náttúrunnar. Áskoranir mannskyns í dag snúa því að því að vernda líffræðilega fjölbreytni. Af þeirri ástæðu tileinkaði alsherjarþing Sameinuðu þjóðana árið 2000, 22. maí dag líffræðilegrar fjölbreytni. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um heim allan til að auka fræslu og vitund almennings um líffræðilega fjölbreytni. Til hamingju með daginn og stöndum vörð um líffræðilega fjölbreytni! Arnhildur Hálfdánardóttir dagskrárgerðarkona á RÚV slóst í för með starfsfólki Náttúrustofunnar í vöktun á sindraskel í Hvalfirði í dag. Meira um það síðar.
Fiðrildaveiðar eru nú hafnar hjá okkur á Suðurnesjum þetta árið og munu standa yfir næstu 30 vikurnar. Náttúrustofan hefur frá árinu 2016 staðið árlega að vöktun fiðrilda í Norðurkoti. Vöktun fiðrilda hófst fyrst hér á landi árið 1995 fyrir tilstilli Náttúrufræðistofnunar Íslands. Náttúrustofur landshlutanna, hafa hver af annarri gerst þátttakendur í verkefninu í náinni samvinnu við Náttúrufræðistofnun með samstilltum aðgerðum.
Þess má geta að frá upphafi verkefnisins hafa alls fundist 47 tegundir fiðrilda og sex tegundir vorflugna í Norðurkoti, en nánar má lesa um það í ársskýrslu Náttúrustofunnar fyrir árið 2023. Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands 2023 er nú komin út. Í skýrslunni gefur að líta fjölbreytta starfsemi stofunnar á liðnu ári. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan.
Í liðinni viku tók Náttúrustofa Suðvesturlands þátt í vinnustofu BIODICE um líffræðilegan fjölbreytileika. Markmið vinnustofunnar var að greina og ræða málefni líffræðilegrar fjölbreytni í víðu samhengi eins og hún birtist í íslenskri stjórnsýslu. Viðfangsefnið tengist sérstaklega verkefninu Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda, þar sem meta á stöðu mála varðandi innleiðingu stefnu samnings Sameinuðu Þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni 2022, Global Biodiversity Framework (GBF), á Íslandi, Danmörku og Finnlandi.
Vinnustofan tókst með eindæmum vel, en um var að ræða fyrstu vinnustofuna af nokkrum sem tengjast munu verkefninu Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda. ![]() Það er okkur ánægja að segja frá því að Náttúrustofan er þátttakandi í EULVA verkefninu (European Ulva Taxonomy Initiative). Um er að ræða stórt samevrópskt verkefni sem miðar að því að gera ítarlegt mat á fjölbreytileika grænþörunga innan Ulva ættikvíslarinnar á evrópskan mælikvarða, byggt á erfðafræðilegum gögnum. Ulva er án efa ein algengasta, útbreiddasta og þekktasta ættkvísl þangs í heiminum. Eins og staðan er í dag á heimsvísu er enn verulegur þekkingarskortur á raunverulegum tegundafjölbreytileika innan ættkvíslarinnar, á það jafnframt við á vel könnuðum svæðum eins og í Evrópu. Á meðfylgjandi mynd má sjá þáttökulönd í verkefninu. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér: https://sites.google.com/view/eulva/ Nemendur á fjórða ári í arkitektúr við Listaháskóla Íslands ásamt kennara sínum, Hlyni Axelssyni, heimsóttu Náttúrustofuna í dag. Starfsfólk stofunnar þau Ólafur Páll og Sigríður Vala tóku á móti hópnum og kynntu þeim starfsemi hennar sem og náttúrufar Reykjanesskagans. Þessi nemendahópur mun hafa aðstöðu í Reykjanesbæ þessa önn allt fram á vor. Nemendurnir munu kynna sér bæinn og náttúru Reykjaness og móta í kjölfarið úr því verkefni. Verður spennandi að sjá hver afraksturinn verður. Við þökkum þessum flotta hóp fyrir komuna og óskum þeim góðs gengis við verkefni sín á önninni. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
March 2025
Categories |