Grein um hinn framandi sjávarsnigil svartserk kom út í dag í vísindaritinu Journal of the Marine Biological Association of the United Kingdom, en um er að ræða samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Náttúrustofu Suðvesturlands.
Eggjamassar úr óþekktu lindýri hafa fundist á Suðvesturlandi Ísland síðan 2020, en það var ekki fyrr en í ágúst 2023 sem fullorðnu lífverunni sjálfri var safnað. Formfræðileg greining á bæði fullorðnum einstaklingum og eggjamössum bentu til að um væri að ræða tegundina Melanochlamys diomedea, en tegundin hefur fengið nafnið svartserkur á íslensku. Þessi greining var svo endanlega staðfest erfðafræðilega með COI, H3 og 16S rRNA vísum og jafnframt landnám nýrrar tegundar í Norður-Atlantshafi. Meðlimir Melanochlamys ættkvíslarinnar hafa til þessa aðallega fundist í Indó-Kyrrahafssvæðinu og Kyrrahafinu, aðeins ein tegund er þekkt þar utan og finnst á Madeiraeyjum, Kanaríeyjum og Cape Verde í Atlantshafi. Þekkt náttúruleg útbreiðsla sjávarsnigilsins svartserks nær frá Alaska til Kaliforníu Kyrrahafsmegin í Norður-Ameríku og lifir að jafnaði í fínkornóttum botni í fjöru og neðan hennar. Ekki er vitað hvernig tegundin barst til Íslands. Líklegast þykir þó að tegundin hafi borist hingað með sjóflutningum, annað hvort með kjölfestuvatni eða sem áseta á skipum. Greinina má nálgast með því að smella á myndina.
0 Comments
Leave a Reply. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
November 2024
Categories |