Í dag eru 23 tegundir framandi sjávarlífvera þekktar í strandsjónum við Ísland. Helstu upplýsingar má finna um hverja og eina tegund hér að ofan (smella á flipa). Allar tegundirnar hafa ýmist fundist hér ítrekað eða í miklu magni og hafa því tekið sér bólfestu hér við land.
Almennt um framandi tegundir sjávarlífvera
Á síðustu áratugum hefur flutningur sjávarlífvera langt út fyrir náttúruleg heimkynni aukist verulega á heimsvísu. Áætlað er að á hverjum degi séu allt að 10 þúsund tegundir á ferðinni milli hafsvæða með skipum. Við strendur Evrópu uppgötvast að meðaltali ein ný framandi tegund, aðra eða þriðju hverju viku. Skilgreining á framandi tegund hefur verið nokkuð á reiki. Í núverandi umfjöllun telst tegund framandi ef hún hefur verið flutt viljandi eða óviljandi til landsins af manna völdum. Aðalflutningsleiðir framandi sjávarlífvera eru taldar vera með skipum, annað hvort utan á skipsskrokkum eða í kjölfestuvatni, með lifandi eldisdýrum, þá sérstaklega skeldýrum sem flutt eru milli svæða og með sendingum milli heimsálfa á efnivið í skrautfiskaræktun milli heimsálfa.
Á undanförnum áratugum hefur fjöldi tegunda sjávarlífvera fundist í strandsjónum við Ísland sem ekki voru þekktar hér áður. Oft er erfitt að meta hvort um er að ræða nýja landnema eða hvort auknar rannsóknir valda því að fleiri tegundir finnist. Ef það eru nýir landnemar getur einnig verið erfitt að segja til um hvort þeir hafi borist hingað með náttúrulegum hætti, t.d. í kjölfar breyttra umhverfisaðstæðna af náttúrulegum orsökum sem gera þeim kleift að nema land á nýjum slóðum eða hvort þeir hafi borist hingað beint eða óbeint af mannavöldum. Í því tilviki getur verið gagnlegt að skoða útbreiðslusögu tegundanna t.d. hvort þær séu upprunar á fjarlægum hafsvæðum, séu með öðrum orðum framandi og hafi dreifst af mannavöldum.
Náttúrustofa Suðvesturlands sér um skráningu og kortlagningu á landnámi framandi sjávarlífvera við Ísland. Rannsóknir á útbreiðslu og líffræði nokkurra þeirra eru einnig stundaðar á nokkrum þeirra t.d. grjótkrabba, glærmöttli og griphvelju. Náttúrustofan heldur einnig úti vöktun á nýjum framandi tegundum í helstu höfnum landsins. Má því segja að á Náttúrustofunni sé miðstöð fræða framandi sjávarlífvera en þar starfa jafnframt einu menntuðu sérfræðingar á landinu á þessu sviði.