Grein okkar Establishment and proliferation under climate change: temperate tunicates in south-western Iceland birtist í vísindaritinu Marine and Freshwater Research í dag.
Greinin fjallar um tvær tegundir framandi möttuldýra sem nýlega hafa numið hér land, þ.e. stjörnumöttul og hlaupskorpumöttul. Báðar tegundirnar eru þekktir skaðvaldar víða um heim og því brýnt að skilja hvernig þær hegða sér í nýjum heimkynnum á Íslandi. Tímgun tegundanna var skoðuð yfir 12 mánaða tímabil og egg og lirfur þeirra taldar. Nú liggur því fyrir gott mat á því hvernig tímgun tegundanna tveggja er á ársgrundvelli. Þetta eru sérlega mikilvægar upplýsingar ef stjórnvöld eða aðrir hagsmunaaðilar hyggjast t.d. ráðast í mótvægisaðgerðir. Þá liggur fyrir hvenær árs vænlegast er til árangurs að ráðast í aðgerðir sem miða að því að uppræta eða hamla frekari útbreiðslu þessara framandi tegunda. Áhugasamir geta séð myndir og þekkta útbreiðslu tegundanna við Ísland hér. Nálgast má greinina með því að smella á myndina hér að neðan:
0 Comments
Karratalningar fara nú fram um land allt. Þessi árstími hentar einkar vel því á vorin eru karrar mjög áberandi, tylla sér á háa staði, hreykja sér hátt og verja sín óðul. Út frá þessum talningum er stofnvísitala rjúpnastofnsins metin. Gengin eru ákveðin snið á varpsvæðum rjúpunnar og þannig er hægt að meta breytileika milli ára í stofnvistfræði hennar. Í gær lauk talningum Náttúrustofunnar á Reykjanesi. Að verkefninu koma fjölmargir aðilar á landsvísu en um samvinnuverkefni er að ræða og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands yfirumsjón með verkefninu. Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands 2021 er nú komin út. Í skýrslunni gefur að líta fjölbreytta starfsemi stofunnar á liðnu ári. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan.
Í Samfélaginu á Rás 1 þann 24.mars fór Guðumundur Pálsson yfir ýmislegt er viðkemur grjótkrabba og framandi tegundum með Sindra Gíslasyni.
Þáttinn má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan. Ljósop í samvinnu við KAMfilm hafa framleitt 6 stutta þætti, hver um 10 mínútur að lengd sem fjalla um áhrif loftlagsbreytinga á sex mismunandi hluta af náttúru Íslands (gróðurfar, fuglar, spendýr, smádýr, vatnalíf og framandi ágengar tegundir). Eru þeir ætlaðir til kennslu og almennrar fræðslu. Þættirnir eru unnir með styrk frá Loftlagssjóði og með aðstoð og í samvinnu við Náttúrufræðistofnun. Hér að neðan má sjá þáttinn um framandi ágengar tegundir, en meðal þeirra sérfræðinga sem rætt er við þar eru þau Joana og Sindri starfsfólk Náttúrustofunnar. Stórvinir okkar þeir Erling Ólafsson og Matthías Alfreðsson skordýrafræðingar á Náttúrufræðistofnun litu við í vikunni. Alltaf tilhlökkun að fá þá félaga í hús í árlegu heimsókn þeirra að greina fiðrildaafla ársins hjá okkur úr Norðurkoti. Aflinn í ár var heldur rýrari hjá okkur en oft áður og fór tímabilið seint af stað eins og víða annars staðar á landinu. Í ár bættist við ein tegund fiðrilda fyrir vöktunarstöðina okkar í Norðurkoti og er heildarfjöldi fiðrildategunda þar nú kominn í 41 tegund, auk fjögurra tegunda vorflugna. Nýjast viðbót fiðrilda við listann er hringygla (Mniotype adusta), en hún hefur fundist víða um landið og er algengust fyrri part sumars. Nánari upplýsingar um hringyglu og önnur fiðrildi á Íslandi má finna á Skodýravef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Við fengum heldur betur góða heimsókn í vikunni þegar félagarnir Jón S. Ólafsson vatnalíffræðingur á Hafrannsóknastofnun og Dave Morritt sjávarlíffræðingur og prófessor við Royal Holloway - University of London litu við hjá okkur.
Dave dvaldi um tíma hér á Garðvegi 1 í Sandgerði árið 1999. Hann stundaði þá rannsóknir á hinni framandi tegund fitjafló með Agnari Ingólfssyni prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands. Dave hefur í gegnum sinn starfsferil til að mynda mikið unnið með framandi tegundir og var því einkar áhugasamur um að kynna sér starfsemina hjá okkur. Við þökkum þeim Jóni og Dave fyrir heimsóknina og er aldrei að vita nema heimsóknin leiði af sér samstarf í framtíðinni. Á gamlársdag 2020 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar (Ensis sp.) í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fann Guðni Magnús Eiríksson líffræðingur lifandi eintak í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Ljóst er að hér er um nýjan landnema að ræða, en áður höfðu tvö eintök af fáfnisskel (Ensis magnus), fundist dauð í fjöru við Lónsfjörð árið 1957. Í millitíðinni hefur ekkert til hnífskelja spurst hér á landi. Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnar hnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams" einmitt komið. Hnífskeljar geta orðið 20 cm langar og þykja hnossgæti. Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund hefur nýlega verið lýst eða árið 2012 og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa. Flutningur sjávarlífvera af manna völdum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær áfastar skipskrokkum eða með kjölvatni skipa. Á Líffræðiráðstefnunni sem haldin var 14.-16.október var sagt frá fundi sindraskeljar hér við land, en rannsókn á tegundinni er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Anishinabek/Ontario Fisheries Resource Centre, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. Sterkar líkur eru á því að sindraskelin hafi borist til Íslands með kjölfestuvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður Ameríku, mögulega fyrir 5 til 10 árum. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskelja er því mikilvæg. Finni fólk eintök af hnífskeljum er það hvatt til að hafa samband við Náttúrustofu Suðvesturlands, sindri@natturustofa.is. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
May 2022
Categories |