Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands 2020 er nú komin út. Í skýrslunni gefur að líta fjölbreytta starfsemi stofunnar á liðnu ári. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan.
0 Comments
Eftir langa jarðskjálftahrynu á Reykjanesi hófst eldgos í Geldingadölum að kvöldi 20.mars síðasatliðins. Gosið er merkilegt fyrir þær sakir að ekki hefur gosið á Reykjanesi í 800 ár. Í upphafi töldu sérfræðingar að gosið væri það lítið að það myndi mögulega aðeins vara í nokkra klukkutíma eða daga, Hraunstreymið hefur hins vegar haldist stöðugt og nú er jafnvel talið að gosið gæti orðið langt. Efnagreiningar vísindamanna sýna að hraunið er frábrugðið hrauni sem runnið hefur á sögulegum tíma á Reykjanesskaganum. Frumniðurstöður benda til að hitastig kvikunnar sé 1180-1190 °C og að hún komi af 15-20 km dýpi. Hraunið hefur samsetningu ólivínþóleiíts og efnasamsetning bergsins nálgast samsetningu frumstæðustu kviku sem gosið hefur á Reykjaneskaga á Nútíma. Fyrir áhugasama má skoða ýtarlegri skýrslu Jarðvísindastofnunar með aðalefnasamsetningu bergs og steinda hér. Starfsmaður Náttúrustofunnar fór á vettvang í gær þann 23.mars. Eldgosið er mikið sjónarspil og má sjá myndir frá heimsókninni hér að neðan. Til stærðarviðmiðunar má geta þess að stærri gígurinn sem hefur hlaðist jafnt og þétt upp frá upphafi goss er nú talinn orðinn 100 m hár. Við hvetjum alla sem hyggjast heimsækja gosið að útbúa sig vel til göngunnar, fylgja stikaðri gönguleið, ganga vel um svæðið og fara að tilmælum björgunarsveitarfólks. Ársfundur vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins um flutning og landnám framandi tegunda (ICES WGITMO) var haldinn 1.–3. mars síðastliðinn. Sem fyrr var einn fundardagur sameininlegur með vinnuhópi um kjölfestuvatn og aðrar flutningsleiðir framandi tegunda (ICES WGBOVS). Sökum heimsfaraldursins var fundurinn haldinn í fjarfundi, í fyrsta skipti frá stofnun árið 1970. Þáttaka var með besta móti og gekk fundurinn vel fyrir sig.
Sérfræðinganefnd ITMO fór yfir stöðu mála í heiminum og þau samstarfsverkefni sem unnin eru innan hópsins. Áhersla var lögð á mikilvægi hertrar löggjafar og fræðslu í baráttunni við útbreiðslu framandi tegunda. Sindri kynnti stöðu mála á Íslandi og þau rannsóknverkefni sem unnið er að hér á landi. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist er ljóst að mikið verk er enn fyrir höndum á heimsvísu. Flutningur framandi tegunda er eitt af stærstu umhverfisvandamálum heimsins í dag og skeytingaleysi gagnvart vandamálinu er enn of almennt. Náttúrustofa Suðvesturlands óskar eftir að ráða náttúrufræðing til starfa. Um er að ræða fullt starf sem fer bæði fram utandyra við gagnaöflun og á skrifstofu við úrvinnslu og framsetningu gagna. Starfið er tímabundið til eins árs með möguleika á áframhaldandi ráðningu.
Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta er fjallað um hina þekktu framandi tegund Didemnum vexillum, Tegundin nam nýlega land við strendur Noregs og er uggur í sérfræðingum þar með framtíðarhorfur því tegundin er skæð. Í greininni er rætt er við Steinunni Hilmu Ólafsdóttur sérfræðing á botnlífríkissviði Hafrannsóknastofnunar og Sindra Gíslason forstöðumann Náttúrustofu Suðvesturlands.
Vefútgáfu greinarinnar má nálgast hér. Í desemberhefti Nordic Journal of Botany er fjallað um athugun okkar á grænþörungnum klapparló (Rhizoclonium riparium). Klapparló er svokölluð dulkynjuð tegund (e. cryptogenic species), þar sem uppruni hennar er með öllu ókunnur. Tegundin finnst víða umhverfis Ísland en er þekkt framandi ágeng tegund víða um heim.
Í þessari grein skýrum við frá miklum þéttleika tegundiarinnar í Reyðarfirði þar sem hún sýnir skýr merki um ágengni þar sem hún þekur allt yfirborð staðbundið. Þess er vert að geta að ágengni tegundarinnar hér við land hefur ekki verið lýst áður. Greinina má finna hér. Í 10 ára afmælisþætti Landans þann 4.október 2020 var rætt við Sindra Gíslason og Halldór Pálmar Halldórsson, akkúrat 10 árum eftir fyrsta innslag þeirra í þáttinn. Innslagið byrjar á 10. mín.
Ánægjulegt að segja frá því að Dr. Joana Micael starfsmaður Náttúrustofunnar er annar tveggja höfunda nýrrar greinar sem birtist í nýjasta hefti vísindaritsins IBIS. En hún og Dr. Pedro Rodrigues eiginmaður hennar segja þar frá mikilvægi gúanós (lífrænt set myndað úr saur sjófugla) í stækkun og velmegun Inkaveldisins. Greinin hefur vakið gríðarmikla athygli og hefur m.a. verið fjallað um hana í Forbes.
Meðfylgjandi er ágrip greinarinnar á íslensku en áhugasömum er bent á að lesa greinina í heild, en hana má nálgast HÉR. "Inka heimsveldið var stærsta forna siðmenningin í Suður-Ameríku, náði það yfir hátt í 4000 km af fjölbreyttu landsvæði sem náði frá Kyrrahafsströndinni til Andesfjalla, og yfir mestalla eyðimörkin þar á milli. Rannsóknin sýnir mikilvægi gúanó fugla (Leucocarbo bougainvillii, Pelecanus thagus og Sula variegata) fyrir stækkun og velmegun Inkaveldisins. Notkun gúanós sem áburðar var grundvöllur þess að viðhalda landbúnaðarþróun heimsveldisins og hefur því jafnframt verið haldið fram að gúanóið hafi verið grunnurinn að örum vexti veldisins. Aðgangur að gúanói á strandeyjum, sem síðan var flutt hátt upp til fjalla á meginlandinu, veitti meira en 8 milljónum íbúa fæðuöryggi. Mikilvægi gúanó fugla Inkaveldisins leiddi til þróunar stjórnunaráætlana, byggðum á hegningarlögum, sem miðuðu að því að varðveita þessar fuglategundir og náttúruleg búsvæði þeirra. Þessar verndaraðgerðir eru mögulega alfyrstu verndarráðstafanir í mannkynsögunni sem byggðar eru á mikilvægi tegunda fyrir athafnir manna og lífsviðurværi." Starfsmenn Náttúrustofunnar og Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum fóru á dögunum með nemendur á þriðja ári í líffræði við Háskóla Íslands í sýnatökur á Sundin við Reykjavík. Sjóferðin er hluti af fjölbreyttu og umfangsmiklu vettvangsnámskeiði í vistfræði. Þetta er fjórða árið sem nemendum hefur boðist að fara á sjó með okkur. Fá nemendurnir innsýn í rannsóknarvinnu okkar og fá kost á að læra réttu handtökin. Gerast nemendur í vettvangsnámskeiðinu því þáttakendur í mikilvægri vöktun á stofnbreytingum á hinum nýja landnema grjótkrabba. Nemendur fengu frábært veður og stóðu sig með mikilli prýði. Aðstæður voru sérstakar í ljósi Covid-ástandsins í samfélaginu svo passað var upp á fjarlægðartakmarkanir milli allra eins og unnt var. Þetta er 14. árið sem rannsóknir og vöktun grjótkrabba fara fram hér við land. Náttúrustofa Suðvesturlands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum hafa yfirumsjón með verkefninu. Rannsóknir og vöktun okkar á kröbbum sl. 14 ár hafa sýnt fram á miklar breytingar við SV-land. Hinni framandi tegund grjótkrabba fjölgar stöðugt og innlendu tegundunum trjónukrabba og bogkrabba fækkar. Þessi þróun innlendra tegunda og hratt landnám grjótkrabbans umhverfis Ísland er áhyggjuefni. Rannsóknir og vöktun eru lykillinn að því að fylgjast með stofnbreytingum tegunda og til að greina breytingar í vistkerfum. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
April 2021
Categories |