Þann 20. maí árið 2019 fann Þorgbjörg Gígja tvær tómar sindraskeljar (Ensisterranovensis) í Kollafirði, er þetta fyrsti skráði fundur tegundarinnar hér við land. Fyrstu tvö staðfestu lifandi eintökin fann Jónas Pétur Aðalsteinsson svo í Leiruvogi í febrúar árið 2020. Síðan þá hafa fundist lifandi skeljar á báðum þessum stöðum og í innanverðum Hvalfirði og sunnanverðum Borgarfirði. Ljóst er að hér er um nýjan landnema að ræða. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hnífskeljar finnast við Ísland, en árið 1957 fundust tvö eintök af fáfnisskel (Ensis magnus) dauð í fjöru við Lónsfjörð. Í millitíðinni hefur hins vegar ekkert til hnífskelja spurst við Ísland.
Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnar hnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams" einmitt komið. En hnífskeljar geta orðið stórar, eða allt að 20 cm langar.
Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund var fyrst lýst árið 2012 og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa.
Flutningur sjávarlífvera af manna völdum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær áfastar skipskrokkum eða með kjölvatni skipa. Sterkar líkur eru á því að sindraskelin hafi borist til Íslands með kjölfestuvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður Ameríku, fyrir a.m.k. 5–10 árum. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskelja er því mikilvæg.
Náttúrustofa Suðvesturlands hefur umsjón með vöktun og rannsóknum sindrskelja við Ísland en rannsókn á tegundinni er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands.
Finni fólk eintök af hnífskeljum er það hvatt til að hafa samband við Náttúrustofu Suðvesturlands og senda okkur mynd og staðsetningu fundarins á: [email protected]. Værum við einnig þakklát ef fólk hefur tök á að safna hnífskeljunum fyrir okkur, ef þær finnast lifandi þá er best að geyma þær í frysti.
Hér að neðan gefur að líta myndband sem sýnir hvernig best er að bera sig að við að fanga sindrskel (og aðrar hnífskeljar) í setfjörum þegar skeljarnar sjást rétt stand upp úr setinu. Ef ekki er farið rétt að er hætta á að slíta stærsta vöðvann, þ.e. fótinn sem er allt í senn þreifari, ankeri og graftartæki skeljarinnar.