Náttúrustofa Suðvesturlands hefur í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja vaktað saurkólígerlamengun á Reykjanesskaga frá árinu 2005. Um er að ræða sýnatökur á 20 völdum stöðum sem framkvæmd er á þriggja mánaða fresti, þar af tekur Náttúrustofa Suðvesturlands sýni á 10 stöðum.
Sýnatökustaðirnir ná um allan Reykjanesskagann en eru flestir í nágrenni við þéttbýli. Tekin eru sjósýni á hverjum stað til að meta hvort magn saurkólígerla sé undir leyfilegum viðmiðunarstöðlum. Umhverfismörk fyrir saurkólígerla eru flokkuð í fimm flokka, frá umhverfismörk I sem er <14 per 100 ml sem er leyfilegt og er þá mjög lítil eða engin mengun og upp í umhverfismörk V sem er > 1000 per 100 ml sem er ófullnægjandi ástand vatns vegna mikillar saurmengunar. Magn saurgerla á að vera undir umhverfismörkum I en mega fara upp í umhverfismörk II (43-100 per 100 ml) í 10% tilvika.
Ljóst er að skólphreinsunarmál og frágangur skólpfrárennslis er mjög ábótavant á mörgum stöðum. Upplýsingar um niðurstöður sýnataka má nálgast hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Yfirumsjón með sýnatöku og úrvinnslu er í höndum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sem og eftirfylgni ef krefjast þarf úrbóta.