Rannsóknirnar miðuðu að því að greina dreifingu, tíðni og gerðir fuglaflensu með það að leiðarljósi að kanna hvernig flensuvírusar smitast milli Evrasíu og Ameríku auk þess að kanna áhrif þeirra á heilsu fugla. Árlegar sýnatökur fóru fram á árunum 2010-2018 víðsvegar um landið í samstarfi við US Geological Survey, Háskóla Íslands og Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum. Í tengslum við rannsóknirnar á fuglaflensu hefur verið unnið að því að meta heilsu fugla með beitingu ýmissa líffræðilegra mælikvarða, s.s. DNA skemmdir og ensímavirkni, ásamt því sem tíðni blóðsníkjudýra er metin í mismunandi fuglategundum.
Sýnatökur í tengslum við rannsóknina fóru að mestu fram í næsta nágrenni við Náttúrustofu Suðvesturlands en einnig voru tekin sýni vítt og breytt um landið. Stærsti hluti sýna kom úr vorveiðum á fuglum og einnig var farið í reglulega í sýnatökur á haustin. Framan af var helsti þunginn á að safna upplýsingum um hvaða vírusar væru til staðar, hversu algengir þeir væru og hvaðan þeir kæmu, hluti þessara gagna hefur nú verið birtur í tímaritinu PlosOne. Síðar var farið að vinna í því að taka sýni úr fleiri tegundum og einnig var farið að beita líffræðilegum mælikvörðum til að meta hvaða áhrif vírusarnir hafa á heilsu fuglana.
Í ljós hefur komið að hér finnast fuglaflensuvírusar bæði frá meginlandi Evrópu og Norður-Ameríku sem og blandaðir fuglaflensuvírusar og er það í fyrsta sinn sem slíkir vírusar finnast á sama tíma á sama svæðinu í heiminum. Þessar upplýsingar geta gefið okkur mynd af því hvernig fuglaflensur berast milli heimsálfa og hlutverk Íslands í því ferli. Um landið fara mikið af fuglum á ferð sinni milli varp- og vetrarstöðva og benda þessar niðurstöður til þess að fuglaflensuveirur geti borist frá Evrópu og Asíu til Norður-Ameríku um Asíu. Mesta magn vírusa hefur fundist í mávum og andfuglum en einnig hafa vírusar fundist í vaðfuglum og svartfuglum. Mótefni hafa fundist í flestum tegundum fugla sem sýni hafa verið tekin úr en það er mjög misjafnlega hátt hlutfall milli tegunda.