Fjórir staðir hafa verið vaktaðir á undanförnum árum; Krýsuvíkurberg, Valahnúkur, Hafnaberg og Hólmsberg, í heildina 10 snið. Bjargfuglavöktunin fer fram víðsvegar um land í samstarfi við aðrar náttúrustofur. Upphafsmaður vöktunar á sjófuglum í björgum var dr. Arnþór Garðarsson og hóf hann verkefnið árið 1983-1986 þegar hann fór um landið og fann talningarsnið sem notuð hafa verið síðan þá til að fylgjast með breytingum í fjölda varpfugla og varpárangri. Margir stofnar sjófugla standa nú höllum fæti hér við land og fara stofnar þeirra ört minnkandi. Mikilvægt er að fylgjast vel með þessum stofnum til að geta greint þær breytingar sem eru að eiga sér stað í umhverfi okkar.
Teknar eru myndir af hverju sniði fyrir sig og út frá myndunum er skráður fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og svartfugla. Einnig er talinn fjöldi svartfugla á sjó á staðnum til að finna út hlutfall tegunda sem sjást á myndunum. Farið er aftur seinna á varptíma til að áætla varpárangur hjá ritu og er hann áætlaður á staðnum. Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúrustofa um allt land og hefur Náttúrustofa Norðausturlands nú yfirumsjón með verkefninu. Verkefnið fékk árið 2016 fjárveitingu frá Umhverfisstofnun í gegnum veiðikortasjóð til þess að renna styrkari stoðum undir stöðuga og öfluga vöktun á bjargfuglum á landsvísu.