Í júní árið 2020 fannst mikið magn eggjasekkja og fullorðinna dýra í Fossvogi (sem unnt var að greina af myndum), er þetta fyrsti skráði fundur tegundarinnar hér við land. Fjöldi eggjasekkja fannst svo árið 2021 í Sandgerði og aftur árið 2023. Árið 2023 fundust svo egg og fullorðnir einstaklingar í innanverðum Breiðafirði. Ljóst er að hér gefur að líta nýjan landnema. Um merkilegan fund er að ræða þar sem þetta er í fyrsta skipti sem svartserkur finnst utan sinna náttúrulegu heimkynna sem spanna Kyrrahafsströnd N-Ameríku, frá Alaska til Suður-Kaliforníu.
Með erfðagreiningu eggja og fullorðinna dýra hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Melanochlamys diomedea, sem nefnd hefur verið svartserkur.
Flutningur sjávarlífvera af manna völdum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær áfastar skipskrokkum eða með kjölvatni skipa. Sterkar líkur eru á því að svartserkur hafi borist til Íslands með þeim hætti.
Náttúrustofa Suðvesturlands hefur hafið vöktun á svartserk við Ísland, en um samvinnuverkefni með Hafrannsóknastofnun er að ræða.
Finni fólk eintök svartserkja eða eggjasekki þeirra er það hvatt til að hafa samband við Náttúrustofu Suðvesturlands og senda okkur endilega mynd og staðsetningu fundarins á: [email protected]. Værum við einnig þakklát ef fólk hefur tök á að safna svartserkjum fyrir okkur, ef þeir finnast lifandi þá er best að geyma þá í frysti.