Á árunum 2005-2013 var unnið að því á Náttúrustofunni að flokka fjörur Reykjanesskagans í vistgerðir. Með þessari vinnu fékkst yfirlit yfir þær vistgerðir sem finnast á svæðinu, einkenni þeirra og útbreiðslu. Notast var við Evrópska staðla varðandi skilgreiningar á fjörubúsvæðum og unnið var ofan í uppréttar loftmyndir teknar á stórstraumsfjöru. Svæðið sem unnið var með í þessu verkefni er Reykjanesskagi, frá Straumsvík að Ölfusárósum. Upplýsingum var safnað bæði í vettvangsrannsóknum sem og upplýsingar sem voru til og þær settar á kortagrunn. Gögnin hafa nú verið færð inn í Natura Island, sem er IPA verkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands sér um framkvæmd á með styrk frá Evrópusambandinu. Markmið verkefnisins er að annast vistgerðaflokkun á öllu landinu, þ.e. í vatni, á landi og í fjöru með því að afla nauðsynlegra gagna, annast flokkun og gera vistgerðarkort. Áætluð verklok á IPA-verkefnisins eru árið 2016.
Kortlagning fjöruvista á Reykjanesskaga er yfirgripsmesta kortlaging á fjörusvæðum sem hefur átt sér stað á Íslandi og hér hefur farið fram vistgerðarflokkun eftir EUNIS kerfinu sem og íslenska flokkunarkerfi Agnars Ingólfssonar á fjöruvistum. Fyrir allt landið er til skipting niður í megin fjörugerðir; setfjörur og grýttar fjörur en þeim síðarnefndu er síðan skipt í þangfjörur og þangsnauðar fjörur. Á Reykjanesskaga hafa fjörurnar verið flokkaðar í sértækari undirgerðir sem eru 19 talsins. Flokkun svæða í vistgerðir er mikilvæg undirstöðuþekking þegar kemur að vernd og nýtingu náttúrunnar. Upplýsingar um hvaða vistgerðir eru á svæðinu eru náttúrufarsupplýsingar sem nýtast við gerð skipulagsáætlana, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og við ákvarðanatöku þegar kemur að landnýtingu. Kortlagning Náttúrustofu Suðvesturlands á fjöruvistum eru grunnur þeirrar vinnu sem ráðist var í fyrir landið allt í einfaldaðri mynd og birtist í tímamótaútgáfu Fjölrits Náttúrufræðistofnunar Íslands Vistgerðir á Íslandi og vistgerðakorti árið 2016.
Fjörur landsins eru ákaflega mikilvægur hluti íslenskrar náttúru, líkt og hjá öðrum eyja- og strandsamfélögum, sem dæmi má nefna að strandfuglar eru meir en þriðjungur allra íslenskra fugla. Þekking á fjörum auðveldar skipulag umhverfis og gerir nýtingu fjara til útivistar auðveldari sem stuðlar að heilbrigðari lífsháttum og þar með bættri heilsu. Við frekari vinnu Náttúrustofunnar hefur kortlagningin m.a. nýst við mat á umhverfisáhrifum, sértækari rannsóknir á sviði fjöruvistfræði og í samstarfsverkefnum við fyrirtæki, t.d. við nýtingu fjöruþörunga fyrir heilsu- og snyrtivöruiðnað sem og við fræðslu almennings.