Rannsóknin var samstarf Náttúrustofunnar við Háskólann í Glasgow (University of Glasgow) og snéri að varpi æðarfugls. Athugunarþættir voru einangrun hreiðurs, hver áhrif dúntekju, veðurfars og truflana geti haft á hitastig í hreiðri og hvernig kollugæði (female quality) endurspeglast í vali á hreiðurstæði. Á árunum 2004-2007 kom hingað Liliana Bernice D´Alba doktorsnemi og vann hún við söfnun gagna í æðarvarpinu við Norðurkot. Niðurstöðurnar sýndu m.a. fram á að eggjafjöldi er í sambandi við skjól í hreiðrum og eru að jafnaði fleiri eggjum verpt í skjólmeiri hreiður. Munur í meðalhitastigi í hreiðri og lofthita er ekki endilega meiri í skýldum hreiðrum en breytileiki á hitastigi er mun minni. Einnig sýna niðurstöður að mikill breytileiki er á magni dúns sem kollurnar leggja í hreiðrin og eru betri kollur (þ.e. þær sem verpa fleiri eggjum) að leggja meiri dún í hreiðrin. Í tilraunum sem gerðar voru í varpinu kemur í ljós að með því að skýla hreiðrum má ná hærra útungunarhitastigi sem leiðir til styttri útungunartíma. Í ljós kom að kollur í skjólgóðum hreiðurstæðum tapa minni þyngd við álegu en kollur á berangri. Þessar niðurstöður geta nýst æðarbændum mjög vel og þær undirstrika það sem haldið hefur verið fram af ráðunautum. Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni Liliana D’Alba við Háskólann í Glasgow.