Náttúrustofa Suðvesturlands hefur komið að margvíslegum rannsóknum á máfum allt frá árinu 2004. Hér að neðan gefur að líta hluta af þeim rannsóknum sem unnar hafa verið á stofunni.
Tengsl fæðu, líkamsástands og varplíffræði við breytingar á varpstofni sílamáfa Frá 2004 hefur verið fylgst með varpi og varpárangri sílamáfa á Miðnesheiði. Þar hefur sérstaklega verið kannað fæðuatferli og fæðutegundir, varplíffræði og stærðar varpstofns. Á þessu tímabili hafa orðið miklar sviptingar í fjölda verpandi fugla og samhliða þeim hafa fuglarnir breytt hegðun sinni og varpháttum. Fyrstu merki um vandræði komu fram í seinnihluta sumars 2005 og þá fóru ungar að deyja í stórum stíl. Árið 2006 var máfavarpið eins og eyðimörk og má segja að varp hafi misfarist algerlega. Vorið 2007 kom mjög lítið af máfi inn til að verpa og útlit fyrir annað slæmt varpár. Í júlí gerðist það hins vegar að þeir ungar sem höfðu þraukað fram að þeim tíma virtust ná því verða fleygir. Rannsóknin var hluti af Ph.D. verkefni Gunnars Þórs Hallgrímssonar og var Páll Hersteinsson aðalleiðbeinandi.
Samband tófu og sílamáfs Náttúrustofan hefur kannað hvernig tófa hefur áhrif á útbreiðslu sílamáfsins á Miðnesheiði og athugað hvort tófan geti einnig haft áhrif á þéttleika og/eða stofnstærð þeirra. Hagnýting verkefnisins er umtalsverð þar sem um stórt sílamáfsvarp í nágrenni alþjóðaflugvallar er að ræða. Niðurstöður benda eindregið til þess að tófur geti haft áhrif á útbreiðslu sílamáfs en óvíst er hvort hún geti haldi stofninum niðri. Þetta þarf þó að rannsaka nánar til að nálgast þekkingu á samspili þessara tegunda. Birt grein sem fjallar um samband refa og máfa á Miðnesheiði en rannsóknin var hluti af Ph.D. verkefni Gunnars Þórs Hallgrímssonar.
Samræming klaks hjá sílamáfum Rannsókn á því hvernig sílamáfar geta haft áhrif á fósturþroska afkvæma sinna með varp- og áleguhegðun sinni. Skoðað var hvernig máfarnir samræma klak með því að hefja ekki álegu strax og fyrsta eggi hefur verið verpt. Egg sílamáfa innan hvers hreiðurs klekjast ekki á sama tíma. Í þessari rannsókn var samræming klaks skoðuð í þaula. Talið er að sílamáfar, sem verpa 3 eggjum, byrji að liggja á þegar tvö egg eru komin í hreiðurskálina. Ef við gefum okkur að þeir hefji álegu á öðru eggi og að það líði um tveir sólarhringar á milli eggja þá mætti álykta sem svo að tvö fyrstu eggin klektust á svipuðum tíma en þriðja eggið tveimur dögum seinna. Í náttúrunni klekjast fyrstu tvö eggin með nokkurra klukkustunda millibili. Hins vegar klekst unginn úr eggi þrjú aðeins einum og hálfu degi síðar. Miran Kim frá Háskólanum í Glasgow vann við rannsóknir á þessu fyrirbæri á Miðnesheiði sumarið 2005 sem hluta af doktorsverkefni sínu.
Tengsl vaxtar og aldurs sílamáfa Rannsóknin gekk út á að skoða tengls vaxtar og og aldurs hjá sílamáfum. Líkur eru á að því hraðar sem máfarnir vaxa úr grasi því styttri lífaldur hafi þeir. Skoðaður var partur af DNA sem kallast “telomere” litningsendi. Þessi litningsendi minnkar eftir því sem máfurinn eldist. Teknar voru blóðprufur hjá máfsungum sem voru innan við 20 daga gamlir og sendar á Rannsóknarstofu Háskólans í Glasgow. Þannig var hægt að áætla hve hratt litningsendinn minnkaði og þar af leiðandi hve langan líftíma máfurinn hefði. Með því að bera saman hve hratt litningsendinn minnkaði við vöxt unganna var hægt að sjá tengsl milli vaxtar og öldrunar. Búist var við að þeir ungar sem tóku hraðasta vaxtakippinn myndu einnig hafa litningsenda sem minnkaði hraðast. Því miður þá var ungadauðinn mjög mikill á þessu ári á því svæði sem rannsakað var. Þar af leiðandi eru marktæk gögn ekki eins mikil og væntingar stóðu til um. Verkefnið var unnið af Chris Foote frá Háskólanum í Glasgow í samstarfi við Náttúrustofu Reykjaness.
Kynblöndun silfur- og hvítmáfa Upp úr 1970 lýsti dr. Agnar Ingólfsson, síðar prófessor við H.Í., útlitsbreytileika hjá silfur- og hvítmáfum sem hann taldi vera merki um kynblöndun. Hann ferðaðist um máfabyggðir hringinn í kringum landið og veiddi máfa til mælinga auk þess sem hann gaf þeim einkunn eftir því hveru mikið svart var í handflugfjöðrum þeirra. Mynstrið sem kom út var á þá leið að hvítmáfar væru fyrst og fremst á Vestfjörðum og að “hreina” silfurmáfa væri helst að finna á Austfjörðum. Þar væri þó sumsstaðar einnig að finna merki um kynblöndun tegundanna. Í sögulegu samhengi taldi Agnar að við landnám silfurmáfs hér á landi í upphafi 19. aldar hafi hann yfirtekið hvítmáfsvörp sem fyrir voru (t.d. á Reykjanesskaga og í Vestmannaeyjum) og blandast við þá hvítmáfa. Þessi niðurstaða Agnars var gagnrýnd af dr. Richard Shnell sem ritaði m.a. grein þar sem hann taldi útilitsbreytileikann ekki vera vegna kynblöndunar. Shnell taldi skýringuna á þessum breytileika fremur vera vegna þess að silfurmáfar með óvenju ljósa vængenda (slíkir fuglar fnnast t.d. í norður Skandinavíu) hefðu numið hér land og náð að fjölga sér. Slíkt fyrirbæri hefur verið kallað “founder effect” upp á enska tungu. Árið 2005 var þráðurinn tekinn upp að nýju. Búið var til mastersverkefni við Háskóla Íslands sem snýr að því að kanna með sameindalíffræðilegum aðferðum hvort kynblöndum þessara tegunda hafi átt sér stað. Skoðuð voru fjaðursýni sem spönnuðu 40 ár. Niðurstöðurnar voru bornar saman við sýni frá Austur-Grænlandi og Evrópu. Erfðafræðileg greining (microsatellites, mtDNA) sýndi skýra aðgreiningu tegundanna tveggja en þó nokkuð sé um sameiginlega þætti. Niðurstöður sýndu að líklegt verður að telja að einhver kynblöndun hefur átt sér stað nýlega á Íslandi á tegundunum tveimur. Verkefnið var mastersverkefni Freydísar Vigfúsdóttur við Háskóla Íslands og leiðbeinendur hennar eru dr. Snæbjörn Pálsson, dósent, og dr. Agnar Ingólfsson, prófessor, Gunnar Þór Hallgrímsson (Náttúrustofa Suðvesturlands) var samstarfsaðili að verkefninu.
Lömunarveiki tengd skorti á þíamíni (B1 víamíni) Á árunum 2004-2009 vann Náttúrustofan að rannsókn með háskólanum í Stokkhólmi á dauða og lítillar frjósemi fugla við Eystrasaltið. Um nokkurra ára skeið hefur borið á lömuðum fuglum á þessu svæði og á varpsvæðum sumra tegunda, eins og t.d. silfurmáfs (Larus argentatus). Þar hafa fundist dauðir og deyjandi fuglar við hreiður. Uppsetning rannsóknarinnar gerði ráð fyrir því að Ísland væri viðmiðunarsvæði þar sem gengið var út frá því að íslenskir fuglar væru við góða heilsu. Nú hefur hluti þeirra gagna sem hefur verið aflað verið birt í einu stærsta vísindatímariti heims Proceedings of the National Academy of Sciences (PNAS). Helstu niðurstöður eru þær að náin tengsl eru á milli veikra fugla og lítillar frjósemi annars vegar og lágra gilda þíamíns á ákveðnum formum og ensíma tengdum þeim hins vegar. Ekki er vitað hvað veldur því að fram kemur skortur á þíamíni í dýrunum en talið er að efnaskiptavandræði valdi því að þau geti ekki nýtt sér þíamínið, fremur en að þíamínskortur sé í umhverfinu. Einnig kom í ljós að svo virðist sem sumir íslenskir fuglar nái ekki þeim gildum sem talið er að einkenna ættu heilbrigða fugla og gefur það vísbendingar um að ákveðin vandamál gætu verið uppsiglingu hérlendis. Vísbendingar eru um að þíamínskort í lífverum sé að finna víða um heim t.d. í N-Ameríku og Ástralíu. Áhersla var á að fylgja þessum rannsóknum eftir og beinast sjónir aðallega að því hvaða efni það eru sem valda því að fram kemur þíamínskortur og einnig hversu útbreitt vandamálið er m.t.t. dýrahópa og landsvæða. Umsjónarmaður var Lennart Balk við Háskólann í Stokkhólmi.