Sindri og Halldór við merkingar á Sundunum við Reykjavík
Rannsóknir á landnámi grjótkrabba hafa verið stundaðar allt frá árinu 2006 þegar krabbinn fannst fyrst hér við land, í Hvalfirði. Frá upphafi hafa rannsóknirnar verið undir forystu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Náttúrustofu Suðvesturlands síðan 2015. Þeir dr. Sindri Gíslason og dr. Halldór Pálmar Halldórsson hafa verið í fararbroddi verkefnisins frá fyrsta degi og leiða rannsóknirnar, en fjölmargir aðilar hafa komið að verkefninu á einn eða annan hátt og má þar helst nefna prófessor Jörund Svavarsson sem kom verkefninu af stað.
Fundur grjótkrabbans hér við land markar tímamót því fyrir fund hans við Ísland var útbreiðsla hans aðeins þekkt í Norður-Ameríku, frá Labrador til Suður-Karolínu. Talið er líklegast að tegundin hafi borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni skipa.
Rannsóknir á tegundinni hér við land hafa m.a. snúið að tilraunaveiðum á fullorðnum dýrum, lirfuþroskun, þéttleika lirfa í uppsjó, stofnstærðarmati og erfðabreytileika krabbans. Grjótkrabbinn er nú orðinn útbreiddur við SV og V strönd Íslands og hefur fundist allt norður í Eyjafjörð. Lirfur krabbans hafa fundist í miklu magni í Hvalfirði og innanverðum Faxaflóa en að auki hafa nokkrir einstaklingar greinst í sýnum úr Patreksfirði. Lirfuþéttleiki er lágur fyrri part sumars en nær hámarki í júlí og dregur svo úr er líður fram á haust. Rannsóknir á erfðabreytileika innan íslenska stofnsins sýna að hann er svipaður og í amerískum samanburðarstofnum en er þó erfðafræðilega frábrugðinn þeim og engin skýr merki um landnemaáhrif eru greinanleg. Hár breytileiki og vaxtarhraði íslenska stofnsins gefa til kynna að hann sé lífvænlegur og þrífist vel við Ísland.
Náttúrustofan og Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum standa undir árlegri vöktun á grjótkrabban og fylgjast þannig með breytingum á viðgangi stofnsins, bæði í afla fullorðinna krabba sem og lirfa í uppsjó. Venju samkvæmt fer vöktunin fram frá vori fram á haust í Hvalfirði og innanverðum Faxaflóa. Rannsóknir og vöktun sem þessi, sem snýr að viðgangi framandi lífvera eru gríðarlega mikilvægar, bæði til að meta áhrifa þeirra á umhverfi sitt og til að læra hvernig þær haga sér í nýjum heimkynnum. Flutningur framandi lífvera er önnur stærsta ógn við líffræðilegan fjölbreytileika í heiminum á eftir búsvæðaeyðingu. Það er því ljós að um gríðarstórt vandamál er að ræða þar sem margar þessara framandi lífvera verða ágengar í sínum nýju heimkynnum og þannig neikvæð áhrif á umhverfi, efnahag eða heilsu manna. Því er mikilvægt að halda vöktun sem þessari úti en afar fágætt er að landnám sjávarlífveru sé rannsakað frá upphafi landnáms eins og í þessu vilviki. Frekari rannsóknir gera okkur kleift að meta hugsanleg áhrif krabbans á sjávarvistkerfin við Ísland.