Það er þekkt er meðal hinna ýmsu tegunda títa, s.s. lóuþræls og sendlings, að kvenfuglarnir eru með lengri gogg en karlfuglarnir. Ef tíðni neflengda hjá sendlingum er teiknuð upp í súluriti kemur fram tvítoppa ferill. Þessi ferill er eins og tvær normaldreifðar kúrfur sem skarast. Erfitt er því að gera sér grein fyrir áreiðanleika þess að kyngreina fugla sem hafa neflengd á því bili þar sem kúrfurnar skarast. Hjá langnefjuðum stofni sendlinga sem hefur vetursetu í V-Evrópu hefur sá háttur verið hafður á að greina kynin í sundur m.t.t. skurðpunktar kúrfanna. Þ.e. þeir fuglar sem hafa neflengd undir þeim punkti eru karlfuglar en annars kvenfuglar. Hjá þessum stofni hefur komið í ljós að samkvæmt þessari kyngreiningu eru kynjahlutföll mjög skekkt á þann hátt að karlfuglar eru 60–70 %. Þessi stofn sendlinga fer m.a. um Reykjanesskaga á vorin.
Í maí 2003 og 2005 voru sendlingar veiddir á Reykjanesskaga. Fuglarnir voru mældir upp og fjaðrasýni tekin úr þeim. Erfðaefni var síðan einangrað úr fjöðurstaf þessara fjaðra. Vitað er að svokölluð CHD1-gen á kynlitningum fugla eru mis stór eftir því hvort þau eru á W-litningi eða Z-litningi. Þessi gen voru einangruð og mögnuð upp með PCR aðferðinni. Með því að rafdraga bútanna sem magnast í agarósa geli má sjá hvort þeir eru af Z- eður W-litningi vegna mismunandi stærðar. Þannig má sjá hvort fuglinn er kvenkyns (ZW) eða karlkyns (ZZ). Notuð voru GLM (generalized linear models) til að spá fyrir um líkur á að kyngreina fuglana rétt út frá stærðarmælingum. Í ljós kom að mjög öruggt er að kyngreina fullorðna sendlinga á stærðarmælingum og voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í Journal of Field Ornithology í mars 2008.
Þar sem kynjahlutföll fullorðinna sendlinga virðast skekkt í átt að karlfuglum var ákveðið að rannsaka kynjahlutföll unga á varpsvæðum á Melrakkasléttu og kanna hvort kynjahlutföllin séu skekkt frá klaki eða hvort þau komi fram síðar á lífskeiði fuglanna. Farið var um Sléttu í Júní 2008 og náðist að taka blóðsýni úr rúmlega 100 sendlingsungum. Kyn unganna var síðan ákvarðað með DNA greiningu og í ljós kom að kynjahlutföll unganna eru jöfn. Allir ungar sem fundust voru merktir með lithringjum og hafa allmargir fuglaskoðarar tilkynnt um merkta fugla. Þessar rannsóknir hófust í desember 2005 og eru samstarf Gunnars Þórs Hallgrímssonar (Náttúrustofu Suðvesturlands), dr. Snæbjörns Pálssonar (Líffræðistofnun Háskólans) og dr. Ron W. Summers (RSPB í Skotlandi).