Greining á hentugum fuglaskoðunarstöðum á Reykjanesskaga. 21 fuglaskoðunarstaðir voru valdir, þeim lýst, upplýsingum safnað um fuglalíf og aðgengi, auk þess sem lagðar voru fram tillögur að uppbygging og úrbótum við hvern stað. Einnig voru gerðar almennar tillögur m.a. um ábyrgðaraðila, samráð, markaðssetningu, upplýsingaskilti og bílastæði.
Fuglaskoðun er einn af vaxtarsprotum í ferðamennsku á Íslandi í dag. Á Reykjanesskaga er að finna mörg bestu svæði landsins m.t.t. fuglaskoðunar. Þetta helgast fyrst og fremst af því hversu fjölbreytt fuglalíf er þar að finna allan ársins hring ásamt góðu aðgengi. Hvergi annarstaðar á landinu má finna jafn fjölbreytt fuglalíf yfir vetrartímann og á fartímum eru vandfundin svæði þar sem finna má jafn margar tegundir á jafn aðgengilegan hátt og á Reykjanesskaganum. Samkvæmt samantekt hafa 195 tegundir fugla sést á Reykjanesskaga frá aldamótum, þar af eru 61 varpfuglar og 66 sjaldgæfar fuglategundir auk fjölda fargesta og annarra algengra flækingsfugla. Fjöldi ferðafólks og fuglaáhugafólks kemur á hverju ári til Íslands til að upplifa íslenska náttúru. Þessi hópur virðist þó ekki nema að mjög takmörkuðu leiti skoða náttúruperlur Reykjanesskaga. Þjónusta og þekkingarmiðlun til ferðamanna að þessari fuglaparadís er enn af skornum skammti og því ljóst að hér liggja mörg ónýtt tækifæri. Uppbygging fuglastígs á Reykjanesskaga er talin geta hjálpað við að ná betur til innlendra og erlendra ferðamanna með bættu aðgengi og auknu framboði kynningar- og fræðsluefnis um náttúru og fuglalíf svæðisins. Þannig er hægt að auka heildarvirði svæðisins fyrir ferðaþjónustu sem og möguleika heimamanna á náttúrutengdri afþreyingu. Gerð fuglastígs getur einnig stuðlað að aukinni umhverfisvitund og bættri umgengni um náttúru skagans og aðstoðað við að ýta undir jákvæðari ímynd svæðisins í augum heimamanna, annarra Íslendinga og erlendra ferðamanna. Verkefnið fékk styrk frá Menningarráði Suðurnesja í gegnum Vaxtarsamning Suðurnesja.