Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga
Verkefnið var samstarfsverkefni Náttúrustofu Suðvesturlands, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Suðurlands og Jarðvísindastofnunar. Markmið verkefnisins var að meta sérstöðu Reykjanesskaga fram yfir aðra hluta gosbeltis Íslands sem landsvæðis til að staðsetja eldfjallagarð, hvort umhverfi og náttúra sé í nógu góðu ásigkomulagi frá sjónarhóli umhverfis-og náttúruverndar og hvort tiltekin svæði séu heppileg inn í eldfjallagarð. Í heild var 14 jarðminjasvæðum lýst sem kæmu til greina sem lykil- eða ítarsvæði í eldfjallagarði. Niðurstöður verkefnisins eru að Reykjanesskagi henti vel sem eldfjallagarðasvæði fyrir jarðfræðitengda ferðaþjónustu vegna legu sinnar nálægt höfuðborg og alþjóðaflugvelli og ekki síður vegna hinna fjölbreyttu eldvarpa og gosminja. Náttúruvernd á skaganum er ábótavant en góð skipulagning á eldfjallagarði gæti stuðlað að úrbótúm í þeim efnum og betri kynningu á svæðinu fyrir almenning.
Það sem einkennir náttúru, menningu og svip Reykjanesskaga öðru fremur er eldvirkni og sambýli við eld. Skaganum tilheyra fjórar megineldstöðvar og þar er að finna allt það helsta sem venjulega fylgir þeim. Á svæðinu er því ómetanlegur auður sem nýta má til fræðslu um sögu jarðar, menningar og nýtingar. Hugmyndin um Eldfjallagarð á Reykjanesskaga miðar að því að draga fram það helsta er snertir eld í jörðu og gera úr því nokkurs konar kennslustofu í eldfjallafræðum.
Verkefnið var meistaraverkefni Helga Páls Jónssonar við Háskóla Íslands (2008-2011) undir umsjón Ólafs Ingólfssonar og Hreggviðs Norðdahl. Nálgast má ritgerðina hér.