Stofnvísitala rjúpnastofnsins er metin með talningum á körrum á vorin. Gagna er aflað hvert ár með því að ganga snið á varpsvæðum rjúpunnar og þannig er hægt að meta breytileika milli ára í stofnvistfræði og nýtast niðurstöðurnar við að ákvarða veiðiþol á stofninum. Náttúrustofan tekur að sér að ganga snið á Reykjanesskaganum í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands sem einnig hefur yfirumsjón með verkefninu á landsvísu.
Rjúpan er eini villti hænsfuglinn hérlendis. Íslenski rjúpnastofninn er þeirrar náttúru gerður að sveiflast þannig að munur á fjölda fugla milli hæða og lægða getur verið um 10 faldur. Sveiflan sjálf hefur yfirleitt tekið um tíu ár en það er lengur en gengur og gerist hjá flestum öðrum sveiflóttum hænsfuglastofnum í nágrannalöndunum. Ástæða þessa er líklega sú að hérlendis eru engir læmingjar en fjöldi þeirra virðist stjórna sveiflum víða á arktískum svæðum. Upp úr 1980 hóf dr. Ólafur K. Nielsen rannsóknir á samspili fálkans og rjúpunnar og standa þær rannsóknir enn yfir. Ljóst er að fálkinn byggir afkomu sína á rjúpunni. Fjöldi fálkaóðala í ábúð sveiflast í takt við sveiflur rjúpunnar en þó með tveggja ára hliðrun, þ.e. hámark og lágmark fálkans er um tveimur árum á eftir rjúpunni. Síðan upp úr 1990 hefur Ólafur unnið að rannsóknum á rjúpunni fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands. Þessar rannsóknir eru fyrst og fremst stofnvistfræðilegs eðlis og er stór þáttur í þeim að telja karra á vorin. Náttúrustofa Suðvesturlands hefur aðstoðað Ólaf við karratalningar á Reykjanesskaga undanfarin ár. Talningar þessar fara þannig fram að í birtingu eru gengin snið og skráir athugandi alla karra sem hann sér og einnig fjarlægð þeirra frá sniðlínunni. Til að meta fjarlægðina er notaður sérstakur fjarlægðarmælir. Þéttleiki karranna er síðan reiknaður út samkvæmt svokallaðari Distance-aðferðafræði. Niðurstöðurnar eru síðan notaðar til að afla upplýsinga um stofnstærð og til þess að gefa út leiðbeinandi upplýsingar um veiðiþol stofnsins á hverju ár