Hnyðlingur úr eldsumbrotum í Fagradalsfjalli árið 2021.
Á árinu hóf Náttúrustofa Suðvesturlands í samstarfi við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands verkefni sem miðar að því að safna og rannsaka hnyðlinga af Reykjanesskaganum. Ólafur Páll Jónasson sérfræðingur á Náttúrustofu Suðvesturlands og Edward Wayne Marshall nýdoktor við Háskóla Íslands hafa yfirumsjón með verkefninu.
Hnyðlingar (e. xenolith) eru bergbrot sem hafa orðið innlyksa í óskyldu bergi. Á Reykjanesi má víða finna dæmi um slíkt og er þá yfirleitt um að ræða djúpbergsbrot sem borist hafa upp á yfirborð með kviku í eldsumbrotum. Hinn dæmigerði Reykjanes-hnyðlingur er því gjarnan gabbró eða annað skylt djúpberg sem umlukið er basalti sem flutti hnyðlinginn til yfirborðs (sjá mynd). Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar fréttist að jarðfræðingar hjá jarðvísindastofnun hefðu fundið nokkuð af hnyðlingum í hrauninu sem kom upp í eldsumbrotunum í Fagradalsfjalli. Vaknaði þá sú spurning hvort slíka hnyðlinga mætti finna um allan Reykjanesskagann, sem þá mætti nota til að rannsaka breytileika í skorpunni undir Reykjanesi og hvaða áhrif sá breytileiki hefði á efnasamsetningu kviku sem nær til yfirborðs.
Á Reykjanesi eru tveir frægir fundarstaðir hnyðlinga, við Hrólfsvík og við Grænavatn. Einnig var vitað til að minnst hafði verið á nokkra fundarstaði í greinum eftir Jón Jónsson í Náttúrufræðingnum án þess þó að hnyðlingarnir hefðu verið rannsakaðir frekar. Þetta vakti vonir um að hægt væri að búa til sýnasafn sem spannaði allt Reykjanesið frá vestri til austurs. Fór þá í gang vinna við að leita að fleiri heimildum sem og að sjá hvort til væru sýni í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Kom þá í ljós að þar er til nokkuð umfangsmikið safn hnyðlinga, sem farið var í gegnum og tekin frá þau sýni sem hentuðu til rannsókna. Einkum voru það þrír jarðfræðingar sem höfðu safnað þessum sýnum Jón Jónsson, Sveinn Jakobsson og Haukur Jóhannesson en að auki voru stöku sýni frá öðrum jarðfræðingum. Engum hnyðlingum hafði hins vegar verið safnað af vestasta hluta skagans og var því farin vettvangsferð í Háleyjabungu og Stampahraun. Á báðum stöðum fundust hnyðlingar og nær sýnasafnið nú því allt frá vestasta eldstöðvakerfinu að Hengilsvæðinu í austri.
Ljóst er að þegar er kominn efniviður til að gera áhugaverðar rannsóknir á hnyðlingum af Reykjanesi bæði með tilliti til tíma og rúms. Þó er ljóst að rúm er til að auka rannsóknagildi sýnasafnsins töluvert með því að fjölga sýnum og fundarstöðum þeirra. Náttúrustofa Suðvesturlands mun því halda áfram að hafa augun opin fyrir hnyðlingum í sínum vettvangsferðum og jafnvel fara í sér ferðir til að leita uppi nýja fundarstaði.
Rekist fólk á hnyðlinga á ferð sinni um Reykjanesskaga er það hvatt til að sendar af þeim myndir ásamt staðsetningu (GPS hnit eða mynd af áberandi kennileiti við staðinn) á netfangið [email protected].