Rannsóknin sem hér er sagt frá fólst í því að kanna hvernig myndavéladróni nýtist til rannsókna á óaðgengilegum og torveldum stöðum. Vettvangur rannsóknarinnar var Eldey. Ómönnuð flugför með myndavélum hafa á síðustu árum orðið mun ódýrari en áður og eru nú almenningseign. Nýting tækjanna við rannsóknir verður sífellt algengari en enn er mikið verk óunnið hérlendis við að staðla verklag, aðferðafræði og nýtingu ómannaðra flygilda við náttúrufarsrannsóknir. Í rannsóknni var lagt mat á aðferðafræðina og birtar niðurstöður súlutalningar í eyjunni í júní 2017, auk talningar á ritu, fýl og selum sem héldu til á eyjunni. Þetta er í fyrsta sinn sem úttekt afmarkaðs sjófuglavarps hér á landi fer fram með dróna.
Rannsóknin gekk vel og voru niðurstöður súlutalninga í góðu samræmi við fyrri talningar í Eldey. Aðferðafræðina þyrfti hins vegar að bæta til að fá fullnægjandi mat á öðrum tegundum, svo sem ritu, svartfugl og fýl. Samkvæmt niðurstöðum þessa rannsóknarverkefnis má nýta dróna með ágætum árangri við talningar í sjófuglabyggðum og gefur það góð fyrirheit um frekari not af þeim við náttúrufarsrannsóknir hér á landi. Fjöldi talinna súlnasetra í Eldey árið 2017 var alls 14.982 og var niðurstaða rannsóknarinnar í góðu samræmi við fyrri talningar á súlu í Eldey. Umsjónarmaður verkefnisins var Sindri Gíslason hjá Náttúrustofu Suðvesturlands .
Rannsóknin var birt í Náttúrufræðingnum árið 2019, 89 (1–2): 22–33 .
Farhætti íslenskra súlna
Í rannsókninni var far íslenskra súlna (Morus bassanus) yfir vetrartímann kannað. Settir voru út 28 dægurritar á varpfugla í Skrúð á Austurlandi í júlí 2010. Af þeim endurheimtust 17 fuglar í tvö ár þar á eftir, tveir dægurritar skiluðu ekki inn gögnum og byggja niðurstöðurnar því á upplýsingum frá 15 fuglum. Vetrarsvæði fuglana reyndust vera frá norðvestur Skotlandi að norðvestur Afríku. Flestir fuglana héldu til við strendur Afríku og í Celtic Sea. Bein loftlína frá varpstað að vetrarstöðvum fór allt upp í 6100 km og gátu ferðalög utan varptíma farið upp í 33.500 km. Fuglarnir voru frá varpstöðvum í 126-128 daga, fóru frá varstöðvum í kringum miðjan september og snéru til baka seinnipart janúar, þó nokkur breytileiki var milli einstaklinga í tímasetningum og lengd fars. Umsjónarmaður verkefnis hjá Náttúrustofu Suðvesturlands var Gunnar Þór Hallgrímsson.