Markmið verkefnisins var að skoða hvaða aðferðum þurfti að beita til að skilgreina verndarsvæði í sjó og hvaða þætti bæri að hafa í huga við hönnun og staðsetningu slíkra svæða.
Fram til síðasta áratugar síðustu aldar voru ákvarðanir um stofnsetningu slíkra svæða oftast pólitískar og ekki byggðar á vísindalegum grunni. Notkun verndarsvæða sem tækis til fiskveiðistjórnunar er umdeild. Þeir sem gagnrýna það segja að flestar nytjategundir séu of hreyfanlegar, að verndarsvæði henti aðeins í sérstökum tilfellum eins og í hitabeltinu, þar sem veiðar eru í mjög smáum stíl og að varasamt geti verið að stofnsetja slík verndarsvæði fyrr en sterkari vísindaleg rök liggja fyrir. Þeir sem eru fylgjandi stofnsetningu verndarsvæða halda því fram að með því að takmarka fiskveiðar á afmörkuðum svæðum sé verið að vernda líffræðilega fjölbreytileika, að þessi svæði þjóni sem trygging og að lífsamfélög og fiskveiðstjórnun hafi hag af verndarsvæðum. Lokun og verndun svæða er beitt víða við stjórnun fiskveiða m.a. til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og til að vernda náttúru- og menningarminjar. Telja má líklegt að í framtíðinni verði þessu stjórntæki beitt í ríkari mæli hér við land. Ein af forsendunum fyrir slíkri stjórnun er aukin þekking á áhrifum verndunarinnar á lífríki hafsins og nýtingu sjávarafurða. Þó svo verndun á minni svæðum sé mikilvægt stjórnunartæki þá hafa sjónir manna beinst meira að stórum svæðum og þá sérstaklega þar sem svæðum hefur verið lokað fyrir öllum veiðum sem og öðrum áhrifum frá mönnum eins og losun úrgangs eða mengunar vegna eldis. Innan íslensku efnahagslögsögunnar eru tilölulega fá svæði í sjó sem hafa verið lokuð fyrir öllum veiðum. Eitt helsta svæðið er í innri hluta Breiðafjarðar en það svæði var friðlýst með sérstökum lögum sem sett voru 1995. Auk þessa voru strýturnar í Eyjafirði friðlýstar af umhverfisráðherra árið 2001 sem náttúruvætti. Einnig hafa skyndilokanir verið notaðar á ákveðnum svæðum til að vernda ungviði fisks. Í þessu verkefni var leitast við að kynna rannsóknir sem lúta að því að skoða forsendur fyrir skilgreiningu þjóðgarða í sjó, gagnsemi og fyrirkomulag verndunar á Íslandsmiðum og hvaða þætti þarf að í huga við stofnsetningu slíkra verndarsvæða. Auk þess voru skrásett og skilgreind svæði í hafinu kringum Ísland sem fylla ofangreindar forsendur. Verkefnið var að hluta til unnið í landupplýsingakerfi þar sem mismunandi þekjur voru notaðar til að finna hentug svæði. Þannig getur ein þekjan sýnt tegundafjölbreytileika botndýra og önnur þekja fiskigengd, enn önnur helstu siglingaleiðir, menningarminjar, jarðminjar, þaraskóga, o.s.frv.. Þessum þekjum er hægt að stafla hverri ofan á aðra og skoða ákveðna þætti saman. Þannig er hægt að kvarða hvaða svæði gæti verið skynsamlegt að friða. Einnig er nauðsynlegt að skoða hvar væri óráðlegt að loka svæðum, t.d. í tengslum við mikilvægar veiði- eða siglingaslóðir.
Verkefnið var meistaraverkefni Sigríðar Kristinsdóttur við Háskóla Íslands (2004-2010) undir umsjón Sveins Kára Valdimarssonar, Jörundar Svavarssonar og Guðrúnar Marteinsdóttur.