Sagþang, Fucus serratus
Sagþang á uppruna sinn að rekja til Atlantshafsstranda Evrópu og barst að öllum líkindum til Íslands með mönnum. Fyrstu skráðu heimildir um sagþang á Íslandi eru frá því um aldamótin 1900 í Vestmannaeyjum og í Hafnarfirði. Útbreiðslusvæði sagþangs er nú frá Merkinesi skammt sunnan við Hafnir á utanverðu Reykjanesi norður um og samfellt til Reykjavíkur. Sagþang vex einnig í Vestmannaeyjum. Annað samfellt fjörusvæði með sagþangi fannst nýlega í innanverðum Hvalfirði þar sem það hafði ekki vaxið áður. Erfðafræðilegar athuganir benda til að sagþang hafi borist til landsins frá Noregi, nánar tiltekið úr Óslóarfirði, fyrir nokkur hundruð árum, en fyrst orðið hér vart um aldamótin 1900 og síðan borist tiltölulega nýlega frá Íslandi til Færeyja. Margt bendir til að sagþang hafi borist með skipum til landsins, einkum sú staðreynd að það fannst fyrst í námunda við hafnir. Athuganir hér á landi hafa sýnt að þar sem sagþang hefur náð fótfestu verður það ríkjandi í neðri hluta fjörunnar og þangtegundir sem fyrir eru víkja. Heimild |
|
Rauðflóki, Bonnemaisonia hamifera
Við Ísland fannst rauðflóki fyrst á árunum milli 1964 og 1975. Tegundin fannst þá í Dýrafirði þar sem hún óx á skúfþangi (Fucus distichus). Síðar fannst þörungurinn einnig í Hvalfirði 2004 þar sem hann óx neðan fjöru á kóralþörungnum Lithothamnion sp. Í lífsferli rauðflóka eru tveir ættliðir, gróliður og kynliður sem eru ólíkir útlits. Gróliðurinn er gerður úr fíngerðum, greinóttum þráðum sem ýmist eru skriðulir eða mynda litla skúfa en kynliðurinn er stærri og myndar þykkari greinar. Einungis gróliðurinn hefur fundist hér við land. Rannsóknir hafa sýnt að gróliðir geta myndað gró ef hiti er hærri en 10°C þegar dagur er stuttur þ.e. þegar sól skín skemur en 12 tíma daglega. Það hendir stöku sinnum hér við land að hitastig sjávar helst hærra en 10°C eftir haustjafndægur en sá hiti varir e.t.v. ekki nógu lengi til að plönturnar nái að fullþroska gró, þau spíri og upp vaxi kynliðir. Víða í Norður-Atlantshafi þar sem B. hamifera hefur komið sér fyrir er hún ágeng en hér við land er hún sjaldgæf, a.m.k. ennþá, og getur því ekki talist ágeng. Heimild |
|
Hafkyrja, Codium fragile subsp. fragile
Grænþörungurinn hafkyrja fannst fyrst við Ísland árið 1974 í Hvalfirði og síðar einnig á Vatnsleysuströnd og við Hafnir á utanverðu Reykjanesi. Í Hvalfirði og við Hafnir vex hafkyrja á hrúðurkörlum á grunnu vatni, neðan fjörunnar en á Vatnsleysuströnd vex hún í fjörupollum, allra efst í fjörunni. Hafkyrja vex á vorin upp af þráðum eða þalbrotum sem hafa lifað af veturinn. Hún vex yfir sumarið og verða stærstu plöntur um 15 cm háar. Hafkyrja hverfur svo aftur sjónum um haustið en eftir verða þræðir á botninum sem nýjar plöntur spretta upp af næsta vor. Ekki hafa fundist æxlunarfæri á hafkyrju hér við land. Rannsóknir hafa sýnt að hafkyrja getur myndað æxlunarfæri ef hitastig sjávar er hærra en 12°C. Hér við land verður sjávarhiti oft hærri í lok sumars inni á fjörðum, suðvestan- og vestanlands. Því gæti hafkyrja hugsanlega æxlast hér við land í heitum árum eða a.m.k. þorskað æxlunarfæri. Víða á útbreiðslusvæði sínu í Norður-Atlantshafi er hafkyrja ágeng. Hér við land er hafkyrja hins vegar hvergi algeng og óvíst hvort tegundin komi til með að verða ágeng líkt og víða annar staðar. Heimild |
|
Klapparló, Rhizoclonium riparium
Grænþörungurinn klapparló lifir allt í senn í ferskvatni, ísöltu vatni og sjó. Klapparló finnst í dag víða um heiminn. Klapparló er svokölluð dultegund (e. cryptogenic), en það er samheiti yfir tegundir sem eru með ókunnan uppruna. Tegundin finnst víða umhverfis Ísland og var fyrst skráð hér við land árið 1972. Erlendis er það þekkt að klapparló getur myndað þykkar mottur sem takmarka birtu og þar með skilyrði fyrir vöxt plöntusvifs og botnþörunga. Þar sem tegundin hefur náð sér á strik erlendis myndar hún víðáttumiklar mottur sem hafa m.a. áhrif á bátaumferð, sund, stangveiði og skapar léleg fæðuskilyrði fyrir fiska. Í fiskeldi geta þörungamottur klapparlóar þakið innviði og dregið þannig úr vatnsrennsli, dreifingu næringarefna, uppleystu súrefni, vaxtarými eldisdýra og dregið úr vexti þeirra. Eins er það þekkt að yfirborð samfléttað þráðlaga þörunga eins og klapparlóar getur skapað kjörumhverfi fyrir eitraðar bakteríur, kísilþörunga og blágræna þörunga. Hér við land hefur hún sýnt tilburði ágengrar tegundar í smábátahöfninni á Reyðarfirði. Ástæða er til að fylgjast með tegundinni. Heimild |
|
Ulva rigida
Grænþörungur Ulva rigida fannst fyrst hér við land í Vestmannaeyjum árið 1972. Tegundin hefur síðan fundist á Mýrunum, í Breiðafirði og í Lónsfirði og Papafirði á Sauðausturlandi. Heimild |
|
Skúfaþang, Fucus disticus subsp. evanescens
Brúnþörungurinn skúfaþang af undirættkvíslinni evanescens hefur fundist við vestur, suður- og austurströnd landsins. Heimild |
|
Desmarestia ligulata
Brúnþörungur Desmarestia ligulata fannst fyrst hér við land fyrir 1967. Árið 1972 fannst tegundin á suðuströndinni, milli Ölfusár og Þjórsár. Síðar hefur hann svo fundist í Hrollaugseyjum. Heimild |
|
Pyropia leucosticta
Rauðþörungurinn Pyropia leucosticta fannst fyrst hér við land í Dýrafirði árið 1979, fannst svo aftur á sama stað 2012. Þörungurinn hefur fundist frá Vestmannaeyjum réttsælis allt til Hólmavíkur og finnst aðallega sem ásæta á sjóarkræðu (Mastocarpus stellatus). Heimild |
|
Pyropia njordii
Rauðþörungur Pyropia njordii hefur fundist við Ísland síðan árið 2005. Fyrstu sýnin voru á meðal stórra sýna sem safnað var á tímabilinu frá 1893 og 2013. Heimild |
|