Flundra, Platichthys flesus
Flundra hefur náttúrulegt útbreiðslusvæði í Norðaustur-Atlantshafi. Hún er algeng á grunnsævi við meginland Vestur-Evrópu og eins í Færeyjum. Fyrsti skráði fundur flundru við Ísland var haustið 1999 í mynni Ölfusár en síðan hefur hennar orðið vart víða og finnst nú í sjó, ísöltu vatni og ferskvatni, réttsælis frá sunnanverðum Austfjörðum til Skagafjarðar og hefur náð hér fótfestu. Flutningsleið flundru til Íslands er sennilega með straumum frá Færeyjum og/eða af mannavöldum með kjölfestuvatni skipa en slíkur flutningsmáti tegundarinnar er þekktur frá Bandaríkjunum, þar sem flundran hefur tekið sér bólfestu. Áhrif flundru á íslenskt lífríki hafa komið fram í afráni á laxfiskaseiðum og samkeppni um fæðu við laxfiska, ál og hornsíli og gæti því tegundin mögulega orðið ágeng við Ísland. Heimild |
|
Græni marhnútur, Taurulus bubalis
Græni marhnútur fannst fyrst hér við land árið 2005 við Vatnsleysuströnd. Árið eftir veiddust nokkrir fiskar í fjörupolli á Seltjarnarnesi meðal annars kynþroska hængur. Græni marhnútur er grunnsævisfiskur sem lifir fyrst og fremst í fjörum. Hann er um 10 cm að lengd, og eru náttúruleg heimkynni hans við Atlantshafsstrendur Vestur-Evrópu, í Eystrasalti og vestanverðu Miðjarðarhafi. Í byrjun 20. aldar töldu danskir fiskifræðingar sig finna lirfur græna marhnúts víða úti fyrir Suður- og Vesturlandi en við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða lirfur litla marhnúts (Micrenophrys lilljeborgii). Talið er líklegt að græni marhnútur hafi nýlega borist hingað til lands með kjölfestuvatni skipa (Jónbjörn Pálsson munnl. uppl.). Græni marhnútur er fremur sjaldgæfur og hefur einungis fundist við Suðvesturland og telst ekki ágengur. Heimild |
|
Hnúðlax, Oncorhynchus gorbuscha
Hnúðlax hefur veiðst af og til í íslenskum ám frá árinu 1960 en þó ekki árvisst. Hnúðlaxinn er af ætt Kyrrahafslaxa og var fluttur til Kolaskaga í Rússlandi til hafbeitar. Hnúðlax hefur smámsaman verið að breiðast út í ám á Kolaskaga og hrygnir nú einnig í ám í norður hluta Noregs. Mest af þeim hnúðlöxum sem vitað er um hér á landi hafa verið hængar sem eru auðþekkjanlegir á einkennandi hnúð sem þeir hafa á baki. Hrygnurnar hafa ekki þennan hnúð og hafa veiðimenn oft misgreint hrygnur hnúðlaxa fyrir sjóbleikju. Árið 2019 veiddust óvenju margir hnúðlaxar vítt og breytt um landið í alls 69 ám, alls voru 213 fiskar skráðir í veiðibækur. Árið 2017 var stærsta árið fram að því en þá veiddust alls 66 fiskar vítt og breytt um landið. Árið 2017 markaði tímamót því þá var í fyrsta skipti staðfest hrygning hnúðlaxa við Ísland og það í nokkrum ám, m.a. í Mjólká og Soginu. Heimild. |
|
Regnbogasilungur, Oncorhynchus mykiss
Regnbogasilungur er Kyrrahafstegund frá vesturströnd Norður-Ameríku. Hann hefur verið fluttur um allan heim til eldis og var fyrst fluttur til Evrópu árið 1884. Hann var fyrst fluttur til Íslands frá Danmörku árið 1950 í fiskeldisskyni. Sjórunnir regnbogasilungar voru fyrst skráð hér við land árið 1983 í ósi Fróðár á Vesturlandi. Síðan þá hefur tegundin sést í ám og tjörnum á Suðvesturlandi þar sem tegundin hefur sloppið eða verið sleppt úr klakstöðvum og eldisstöðvum. Miðað við stærð og aldur sjógenginna regnbogasilunga sem veiðst hafa á Suðurlandi eru líklegt að þeir séu sleppifiskar úr sjókvíum við Færeyjar. Engar vísbendingar eru um náttúrulega stofna á Íslandi. Hins vegar eru möguleg áhrif frá regnbogasilgum afrán og samkeppni við innfæddar tegundir, sérstaklega urriða- og bleikjuseiði. Heimild. |
|