Grjótkrabbi, Cancer irroratus
Grjótkrabbi fannst fyrst hér við land árið 2006 í Hvalfirði. Þetta var jafnframt fyrsti fundur tegundarinnar utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis sem er meðfram austurströnd Norður-Ameríku. Þessi tiltölulega stóra krabbategund, með skjaldarbreidd allt að 15 cm, er talin hafa borist hingað með kjölfestuvatni skipa. Hærri sjávarhiti við Ísland á undanförnum áratugum, hefur að öllum líkindum auðveldað landnámið. Frá landnámi hefur grjótkrabbinn breiðst hratt út með vesturströnd landsins og norður fyrir land og hefur nú numið yfir 70% af strandlengju Íslands, frá Faxaflóa austur í Stöðvarfjörð. Í hinu nýja búsvæði grjótkrabbans eru fáar krabbategundir sem keppa við hann um fæðu, aðallega bogkrabbi (Carcinus maenas) og trjónukrabbi (Hyas araneus). Þrátt fyrir að stutt sé liðið frá landnámi virðist grjótkrabbinn vera orðin ráðandi tegund við suðvesturströnd landsins, hvort sem litið er til fullorðinna krabba eða lirfa í uppsjó og hefur því tekið sér bólfestu hér við land. Stærð og þéttleiki fullorðinna grjótkrabba, fundur kvendýra með egg og allra lirfustiga í svifi, hár erfðabreytileiki og hröð útbreiðsla tegundarinnar með ströndum landsins benda til þess að hinn nýnumdi stofn grjótkrabba sé heilbrigður og þrífist vel við Ísland. Grjótkrabbi er í dag skilgreindur sem ágeng framandi tegund hér á landi og byggir það á hraðri og mikilli útbreiðslu tegundarinnar. Engar rannsóknir hafa þó enn farið fram á beinum áhrifum krabbans á vistkerfi botnsins. Heimild Náttúrustofa Suðvesturlands og Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum hafa yfirumsjón með rannsóknum á grjótkrabba hér við land. |
|
Sandrækja, Crangon crangon
Sandrækja fannst fyrst við Ísland árið 2003 á Álftanesi. Í ljósi fundar tegundarinnar á norðurheimskautssvæðum og tilfallandi fundar tegundarinnar á Íslandsmiðum á seinni hluta 19. aldar er áhugavert að landnáms hafi ekki orðið vart fyrr. Náttúruleg heimkynni sandrækju eru við vesturströnd Evrópu, í Miðjarðarhafi og Svartahafi og er hún oft í miklum þéttleika. Frá landnámi hefur sandrækjan breiðst hratt með suður- og vesturströnd landsins, auk þess sem hún herfur einnig fundist við suðaustanvert landið. Þar sem lirfustig sandrækju varir stutt er ólíklegt að hún hafi borist yfir hafið með straumum. Í ljósi þess og útbreiðslusögu tegundarinnar hér við land er líklegast að hún hafi borist hingað með kjölfestuvatni. Vistfræðileg áhrif sandrækju hér við land hafa ekki verið metin en þéttleiki hennar hefur verið mældur allt að 67 einstaklingar/m2 og hefur tegundin náð hér bólfestu. Sandrækjan er rándýr sem virkast er á nóttunni og ræðst fæðuval af þéttleika aðgengilegrar fæðu. Sandrækja er talin áhrifamikill afræningi skarkolaseiða (Pleuronectes platessa) á uppeldissvæðum. Því er hugsanlegt ágengi tegundarinnar hér við land sérstakt áhyggjuefni þar sem skarkoli er verðmæt nytjategund við Ísland. Heimild |
|
Fitjafló, Orchestia gammarellus
Fjörumarflóin fitjafló fannst fyrst hér við land í Fossvogi árið 1968. Síðan þá hefur hún fundist á allmörgum stöðum við Suður- og Suðvesturland og hefur meira eða minna samfellda útbreiðslu frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Seinna hefur fitjaflóin einnig fundist á nokkrum stöðum við Vestfirði en er þar bundin við heitar uppsprettur í fjörum. Á hverasvæðunum nær tegundin fullum þroska á einu ári sem tekur tvö ár við Suðvesturland. Egg og ungviði fitjaflóar þroskast á kvendýrinu og losna ekki fyrr en þau geta bjargað sér sjálf í fjörunni, en engin sviflæg lirfustig eru til staðar. Dreifingarmöguleikar tegundarinnar eru því takmarkaðir og er því talið líklegt að hún hafi borist til landsins með skipum frá Evrópu, hugsanlega með sandi eða grjóti úr fjörum, sem notað hefur verið sem kjölfesta. Náttúrulegt útbreiðslusvæði fitjaflóar er frá norðurströnd Afríku allt norður að Þrándheimi í Noregi og Færeyjum en hún finnst einnig við Nova Scotia í Kanada. Erfðarannsóknir benda til að stofnarnir við Ísland séu náskyldir innbyrðis og að þeir hafi borist tiltölulega nýlega frá Vestur-Evrópu. Heimild |
|
Praunus flexuosus
Ögnin (Mysidacea) Praunus flexuosus fannst fyrst hér við land árið 1970 í Skerjafirði við Reykjavík. Tegundin er nú mjög algeng við Suðvesturland þar sem hún lifir innan um þang og þara, í fjörunni eða á grunnu vatni. P. flexuosus finnst mjög oft með annarri algengri ögn, Mysis oculata. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í Vestur-Evrópu frá Svalbarða til Ermasundsstrandar Frakklands. P. flexuosus barst til austurstrandar Norður-Ameríku um miðja 20. öldina, sennilega með skipum og er talið líklegt að hún hafi borist hingað með sama hætti. Tiltölulega litlar rannsóknir hafa farið fram á ögnum við Íslandi fyrir fund P. flexuosus og er því erfitt að álykta um hvenær P. flexuosus barst uppphaflega til landsins eða hvaðan. Heimild |
|
Ameríkuhumar, Homarus americanus
Í maí 1965 fékkst eitt eintak af ameríkuhumri í leturvörpu hjá bátnum Sæljóni GK 103 4-6 sjómílur SSV af Eldey á 82-86 faðma dýpi. Heildarlengd frá trjónu aftur á halablöðkur reyndist 39 cm. Var þetta fullorðið karldýr. Áður hafði fengist kvendýr af sömu tegund við vestanvert landið. Heimild. Þetta eru einu skrásettu fundir ameríkuhumars hér við land. Náttúruleg útbreiðsla ameríkuhumars er meðfram austurströnd N-Ameríku, frá Labrador til N-Karólínu í suðri. Tegundin heldur aðallega til á grunnum og svölum sjó og velur sér helst grýtt búsvæði þar sem mikið er um felustaði. Ameríkuhumar getur orðið allt að 64 cm að lengd (án klóa) og 20 kg að þyng. Liturinn er grænsvartur eða rauðbrúnn, einstaka sinnum verða þeir rauðir, bláir eða gulir. |
|