Hjartaskel, Cerastoderma edule Hjartaskel er útbreidd víða í Norðaustur-Atlantshafi en fannst fyrst við Ísland í Faxaflóa árið 1948. Útbreiðslan hefur aukist mikið síðan þá en er þó bundin við Vesturland. Hjartaskel hefur að öllum líkindum borist til landsins frá náttúrulegu heimkynnum sínum í Vestur-Evrópu með straumum og/eða kjölfestuvatni skipa. Erfitt er að meta áhrif tegundarinnar á lífríkið þar sem skelin finnst alltaf í tiltölulega litlu magni en gæti samt sem áður verið í samkeppni við aðrar samlokur á svæðunum um fæðu og pláss, eins og t.d. sandskel, kúfskel og krókskel og er því mögulega ágeng. Heimild |
|
Sandskel, Mya arenaria
Sandskel er algeng í Evrópu og er talið að hún hafi borist þangað á 13. öld frá austurströnd Norður-Ameríku þar sem náttúruleg heimkynni tegundarinna eru. Fyrsti fundur sandskeljar við Ísland var í Hornafirði árið 1958 en skelin hefur fundist víða eftir það, hefur náð hér fótfestu en er alltaf í tiltölulega lágum þéttleika. Sandskelin hefur að öllum líkindum borist til Íslands með straumum og/eða kjölfestuvatni skipa og líklegast frá Evrópu. Erfitt er að greina áhrif landnáms sandskeljar við Ísland á lífríkið en skelin er að öllum líkindum í samkeppni við aðrar skeljategundir á sömu svæðum um fæðu og pláss og gæti því mögulega orðið ágeng með tímanum. Í Eystrasalti og í Danmörku er sandskel talin ágeng tegund og hefur valdið miklum breytingum á lífríki síðustu áratugina. Heimild |
|
Sindraskel, Ensis terranovensis
Tegundinni var nýlega lýst eða árið 2012 og hefur hún einungis fundist áður við Nýfundnaland. Lítið er því almennt vitað um líffræði tegundarinnar. Í febrúar árið 2020 fundust tvær lifandi hnífskeljar (Ensis sp., e. razor clams) í fjöru í Leiruvogi. Ekki er vitað til þess að áður hafi fundist hnífskeljar við Ísland ef frá er talinn fundur tveggja dauðra eintaka árið 1957 í fjörunni við Lónsfjörð á Suðausturlandi. Þær voru taldar vera af tegundinni E. magnus, sem Ingimar Óskarsson nefndi fáfnisskel. Í norðanverðu N-Atlantshafi hafa fundist sex tegundir hnífskelja. Þær eru líkar innbyrðis og getur verið erfitt að greina þær að. Niðurstöður erfðagreiningar á eintökum frá Hafnará og Hvalfirði staðfesta að um er að ræða tegundina Ensis terranovensis, Ætla má að sindraskeljarnar hafi borist hingað sem lirfur í kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd N-Ameríku, líklega fyrir a.m.k. 10 árum. Hnífskeljar geta orðið allstórar, allt að 20 cm langar, og þykja hnossgæti. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskelja er því mikilvæg og hefur Náttúrustofan SV-lands umsjón með henni hér á landi. Nánari upplýsingar hér. |
|
Svartserkur, Melanochlamys diomedea
Svartserkur er Kyrrahafstegund með náttúrulega útbreiðslu frá Alaska suður til Suður-Kaliforníu. Fundur þessarar tegundar snigils hér við land er stórmerkilegur því hér er um fyrsta fund tegundarinnar að ræða í Atlantshafi. Fyrsti staðfesti fundarstaður hér við land var í Fossvogi árið 2020. Síðan hefur tegundin fundist á leirum í Sandgerði og allt norður í Eyjafjörð. Því er ljóst að útbreiðsla tegundarinnar er orðin mikil hér við land og þéttleiki víða mikill, a.m.k. staðbundið. Staðfest er að tegundin er farin að fjölga sér hér því eggjasekkir hafa fundist á öllum fundarstöðunum. Líklegast er talið að svartserkur hafi borist hingað til lands með skipum (í kjölfestuvatni eða á skipskrokkum) til Íslands. Brýnt að kortleggja útbreiðslu tegundarinnar við Ísland og skrá þéttleika hennar. Áhugavert verður að sjá hvaða áhrif þessi nýi landnemi mun hafa á þær tegundir sem fyrir eru. Náttúrustofan SV-lands og Hafrannsóknastofnun vinna saman að vöktun á tegundinni við land. |
|