Heterosigma akashiwo
Í maí 1987 varð mikill laxadauði í eldiskvíum í Hvalfirði. Á sama tíma varð vart við blóma svifþörungsins Heterosigma akashiwo og talið að hann hefði valdið fiskadauðanum. Þetta er eina skiptið sem þessi tegund hefur fundist hér við land. Hugsanleg skýring er að tegundin hafi borist til landsins um þetta leyti, e.t.v. með kjölfestuvatni og að skilyrði hafi verið hagstæð fyrir hana þá og hún fjölgað sér mikið. Hún hafi síðan ekki lifað af þau skilyrði sem henni voru búin það sem eftir lifði árs eða lagst í dvala. H. akashiwo er algeng við strendur Evrópu og ekki ólíklegt að hún geti blómstrað hér aftur. Tegundin barst sennilega af mannavöldum úr Kyrrahafi í Norður-Atlantshaf þar sem hún hefur fundist víða og oft valdið tjóni í fisk- og skeldýraeldi. Hér á landi verður tegundin að teljast hafa verið ágeng. Heimild |
|
Mediopyxis helysia
Mediopyxis helysia fannst fyrst við Ísland árið 2007 í Breiðafirði og hefur fundist í allmörg skipti þar síðan. Tegundin hefur einnig fundist í sýnum úr Tálknafirði frá árinu 2008 og í Hvalfirði fannst hún fyrst 2010. Tegundin er nýlega uppgötvuð. Hún fannst fyrst við vesturströnd Norður-Ameríku árið 1996 og barst til Helgolands í Norðursjó árið 2002. Á báðum þessum stöðum eru til samfelld gögn um svifþörunga marga áratugi aftur í tímann en tegundarinnar hafði aldrei orðið vart. Það er talið næsta víst að hún hafi borist í Norður-Atlantshafið, hugsanlega með kjölfestuvatni, um það leyti sem hún fannst í fyrsta skipti. Það er hins vegar enn ráðgáta hvaðan hún barst þar sem hún hefur ekki fundist annars staðar, enn sem komið er. Í Vaðhafi í Norður-Þýskalandi hefur M. helysia nú fest sig í sessi og hefur undanfarin ár vaxið upp í miklum þéttleika á sumrin. Hún hefur haft yfirhöndina í samkeppni við aðrar svifþörungategundirn um næringu og ljós og og við það hefur tegundafjölbreytni svifþörungasamfélagsins minnkað. M. helysia er því skilgreind sem ágeng tegund þar. Heimild |
|
Stephanopyxis turris
Kísilþörungurinn Stephanopyxis turris fannst fyrst hér við land sumarið 1997. Hann fannst í sýnum frá Hvalfirði. Margar athuganir höfðu verið gerðar á svifþörungum í Hvalfirði og í Faxaflóa allt frá aldamótunum 1900 án þess að tegundin hefði fundist. Síðan tegundin fannst fyrst hefur hún oft fundist í Hvalfirði í þónokkrum þéttleika. Líklegt verður að teljast að hún hafi borist inn á svæðið, af mannavöldum, skömmu áður en hún fannst þar fyrst. Á seinni árum hefur S. turris fundist víða í Faxaflóa og í Breiðafirði og hefur að öllum líkindum borist þangað úr Hvalfirði. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru á strandsvæðum við Evrópu og við austurströnd Norður-Ameríku. Heimild |
|