Eftir langa jarðskjálftahrynu á Reykjanesi hófst eldgos í Geldingadölum að kvöldi 20.mars síðasatliðins. Gosið er merkilegt fyrir þær sakir að ekki hefur gosið á Reykjanesi í 800 ár. Í upphafi töldu sérfræðingar að gosið væri það lítið að það myndi mögulega aðeins vara í nokkra klukkutíma eða daga, Hraunstreymið hefur hins vegar haldist stöðugt og nú er jafnvel talið að gosið gæti orðið langt. Efnagreiningar vísindamanna sýna að hraunið er frábrugðið hrauni sem runnið hefur á sögulegum tíma á Reykjanesskaganum. Frumniðurstöður benda til að hitastig kvikunnar sé 1180-1190 °C og að hún komi af 15-20 km dýpi. Hraunið hefur samsetningu ólivínþóleiíts og efnasamsetning bergsins nálgast samsetningu frumstæðustu kviku sem gosið hefur á Reykjaneskaga á Nútíma. Fyrir áhugasama má skoða ýtarlegri skýrslu Jarðvísindastofnunar með aðalefnasamsetningu bergs og steinda hér. Starfsmaður Náttúrustofunnar fór á vettvang í gær þann 23.mars. Eldgosið er mikið sjónarspil og má sjá myndir frá heimsókninni hér að neðan. Til stærðarviðmiðunar má geta þess að stærri gígurinn sem hefur hlaðist jafnt og þétt upp frá upphafi goss er nú talinn orðinn 100 m hár. Við hvetjum alla sem hyggjast heimsækja gosið að útbúa sig vel til göngunnar, fylgja stikaðri gönguleið, ganga vel um svæðið og fara að tilmælum björgunarsveitarfólks.
0 Comments
Ársfundur vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins um flutning og landnám framandi tegunda (ICES WGITMO) var haldinn 1.–3. mars síðastliðinn. Sem fyrr var einn fundardagur sameininlegur með vinnuhópi um kjölfestuvatn og aðrar flutningsleiðir framandi tegunda (ICES WGBOVS). Sökum heimsfaraldursins var fundurinn haldinn í fjarfundi, í fyrsta skipti frá stofnun árið 1970. Þáttaka var með besta móti og gekk fundurinn vel fyrir sig.
Sérfræðinganefnd ITMO fór yfir stöðu mála í heiminum og þau samstarfsverkefni sem unnin eru innan hópsins. Áhersla var lögð á mikilvægi hertrar löggjafar og fræðslu í baráttunni við útbreiðslu framandi tegunda. Sindri kynnti stöðu mála á Íslandi og þau rannsóknverkefni sem unnið er að hér á landi. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist er ljóst að mikið verk er enn fyrir höndum á heimsvísu. Flutningur framandi tegunda er eitt af stærstu umhverfisvandamálum heimsins í dag og skeytingaleysi gagnvart vandamálinu er enn of almennt. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
December 2024
Categories |