Á forsíðu nýjasta tölublaðs Fiskifrétta prýðir sindraskel. Í blaðinu er svo umfjöllun um tegundina og viðtöl um hana við þá Karl Gunnarsson á Hafrannsóknastofnun og Sindra Gíslason hjá Náttúrustofu Suðvesturlands. Fjallað er um landnám tegundarinnar, mögulegar nytjar og ógnir framandi tegunda við okkar viðkvæmu vistkerfi.
0 Comments
Í Samfélaginu á Rás 1 í dag þann 20.mars ræddu þau Arnhildur Hálfdánardóttir og Guðumundur Pálsson um hinn nýja landnema sindraskel við Sindra Gíslason forstöðumanni Náttúrustofunnar.
Viðtalið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan: Ný grein um stöðu verklags við innflutning skrautfiska og vatnadýra til Íslands og mögulega ógn10/17/2023 Landnám framandi tegunda er undir áhrifum af mannlegum athöfnum og mótast í takti við þær. Viðskipti með lífverur sem fela í sér flutning þeirra, sem getur leitt til landnáms þeirra á nýjum svæðum, teljast til þessara athafna. Í alþjóðaverslun skrautfiska og vatnadýra eru þúsundir tegunda fluttar um heim allann og því er hættan fyrir hendi á að óæskilegum lífverum gæti verið sleppt í vistkerfin með skaðlegum vistfræðilegum og efnahagslegum áhrifum.
Til að kanna stöðuna á Íslandi var úrval gæludýraverslana á skrautfiskum og vatnadýrum skoðað og eins það starfsumhverfi sem þeim er búið m.t.t. laga. Spurningalisti sem lagður var fyrir eigendur gæludýraverslana leiddi í ljós að alls eru 1,275 tegundir sjávardýra í boði fyrir áhugafólk um skrautfiska og vatnadýr á Íslandi. Meðal þeirra eru 134 sem tilkynntar hafa sem framandi tegundir í öðrum löndum og átta þeirra sem flokkast sem ágengar. Þó að veðurfarslega sé töluverður munur á hita milli uppruna- og viðtakaumhverfis þessara tegunda, þá útilokar það ekki möguleika sumra þeirra til að fjölga sér við strendur Íslands. Að auki eru 73 tegundir taldar í yfirvofandi hættu (NT), í nokkurri hættu (VU) eða í hættu (EN) á válista Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Þrátt fyrir að á Íslandi sé löggjöf um innflutning á gæludýrum, þar á meðal skrautfiskum og vatnadýrum, er engum upplýsingum safnað af tollayfirvöldum um tegundir sem verslað er með (tegund/fjöldi). Núverandi staða hvetur til úrbóta á löggjöf og reglugerðum um búrfiskaiðnaðinn hér á landi. Stjórnunaráætlanir eru aðkallandi og ættu að fela í sér kerfisbundna upplýsingasöfnun og fræðsluherferðir sem miða að því að draga úr hugsanlegri losun allra óæskilegra lífvera út í umhverfið. Tekið skal fram að ekki er við gæludýraverslanir að sakast, vandamálið er óskýrt lagaumhverfi á Íslandi og skortur á eftirliti stjórnvalda með innflutningi. Greinina má nálgast með því að smella á myndina. Líffræðiráðstefnan var haldin dagana 12. – 14. október 2023 í Öskju og Íslenskri Erfðagreiningu. Líffræðiráðstefnan er stærsti viðburður sinnar tegundar hérlendis og var þetta í 11. sinn sem hún var haldin. Á ráðstefnunni kemur jafnan meginþorri vísindamanna á sviði líffræðinnar og fulltrúar nær allra stofnana og fyrirtækja sem tengjast lífvísindaheiminum á Íslandi. Ráðstefnan var sem endranær opin almennu áhugafólki um líffræði. Náttúrustofan lét ekki sitt eftir liggja og var með fimm framlög að þessu sinni, tvö erindi og þrjú veggspjöld: Erindi:
Starfsfólk stofunnar studdi einnig við undirbúning ráðstefnunnar, Joana Micael var í vísindanefnd Líffræðiráðstefnunnar og Sindri Gíslason í Heiðursviðurkenningarnefnd. Í dag varði Holly Solloway með miklum sóma meistararitgerð sína Marine litter as a vector for fouling species in the Southwest, Westfjords, and Northeast regions of Iceland í haf-og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Leiðbeinendur hennar í verkefninu voru þau Dr. Sindri Gíslason og Dr. Joana Micael. Prófdómari var Dr. James Kennedy. Hér má lesa ágrip ritgerðarinnar: "Rusl í hafi er orðið alþjóðlegt umhverfisvandamál með auknum vísbendingum um áhrif þess á heimshöf og strandsvæði. Í þessari rannsókn er sjónum beint að sjávarrusli sem flutningsmáta fyrir ásetutegundir (e. fouling species) sem og dreifingu og samsetningu þess á þremur landssvæðum - Suðvesturlandi, Vestfjörðum og Norðausturlandi. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að plastrusl var algengasta tegundin af sjávarrusli sem fannst, hvort sem það var með ásetur eða ekki. Uppruni þess rusls sem fannst á ströndum var aðallega af landrænum uppruna, en það rusls sem hafði ásetur var mest upprunnið úr sjávartengdum iðnaði. Á þeim átta rannsóknarsvæðum sem skoðuð voru fundust yfir 79.000 einstaklingar og 92 tegundir á rusli í fjörum. Á Suðvesturlandi var bæði hæsti þéttleiki rusls og mest af ásetutegundum á rusli. Hins vegar var mest fjölbreytni og tegundajafnræði á Vestfjörðum. Ásetutegundir úr alls sex fylkingunum voru greindar, þ.e. liðormar, liðdýr, mosadýr, seildýr, holdýr og lindýr. Holdýr voru algengustu áseturnar á suðvestur- og norðaustursvæðum. Hins vegar voru liðormar með hæsta ásetuhlutfallið á Vestfjörðum. Tölfræðileg marktæk tengsl voru einnig greind á milli: tegundaauðgi og svæða, þéttleika og svæða, efnisgerðar og yfirborðsgrófleika- og þykktar. Niðurstöðurnar undirstrika þörfina fyrir áframhaldandi vöktun á sjávarrusli við Ísland og mikilvægi þess að innleiða árangursríkrar stjórnunaraðferðir til að draga úr áhrifum þess á lífríki sjávar og stranda." Starfsfólk Náttúrustofunnar tók þátt í 56 ráðstefnu EMBS sem haldin var í Reykjavík dagana 4.-8.september á Hótel Natura. Til gamans má nefna að EMBS hélt síðast ráðstefnu á Íslandi fyrir 21 ári. Dagskrá ráðstefnunar er fjölbreytt og lét starfsfólk Náttúrustofunnar sig ekki vanta og kynntu þau Sindri og Joana eftirfarandi tvö rannsóknarefni um framandi tegundir á Íslandi í nafni stofunnar. Annars vegar um landnám sindraskelja á Íslandi og hins vegar tímgun framandi möttuldýra við Ísland, erindin báru titlana:
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna HÉR. Grein okkar Mollusc on the move; First record of the Newfoundland’s razor clam, Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012 (Mollusca; Pharidae) outside its native range birtist í vísindaritinu Bioinvasion Records í dag.
Greinin segir frá fyrstu staðfestu eintökum sindraskelja hér við land. Fundurinn er um margt áhugaverður því tegundin hefur hingað til aðeins fundist á Nýfundnalandi, en þar var tegundinni fyrst lýst árið 2012. Hér er því um fyrsta fund utan náttúrulegra heimkynna tegundarinnar. Sindraskelin hefur að öllum líkindum borist til Íslands á lirfustigi með kjölfestuvatni. Miðað við stærð eintaka sem fundist hafa á Íslandi er líklegt að tegundin hafi borist til landsins fyrir a.m.k. 5-10 árum. Gera má ráð fyrir að nú sé hér lífvænlegum stofn sem líklegt er að komi til með að breiðast út með ströndum landsins. Um er að ræða samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar, Náttúruminjasafns Íslands, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. Náttúrustofa Suðvesturlands hefur umsjón með vöktun og rannsóknum sindrskelja við Ísland og má lesa betur um verkefnið HÉR. Nálgast má greinina með því að smella á myndina hér að neðan: Í dag heimsótti Náttúrustofuna góður hópur frá Eistlandi. Um er að ræða hóp 17 fulltrúa þarlendra umhverfisyfirvalda sem dvelur nú hér á landi til að kynna sér málefni framandi og ágengra tegunda og hvernig tekið er á þeim málum hér á landi. Þau Sindri og Joana kynntu fyrir hópnum vöktun Náttúrustofunnar á framandi tegundum í sjó við Ísland. Fékk hópurinn að sjá hvernig staðið er að vöktun framandi tegunda í höfnum með því að slást með okkar fólki í Sandgerðishöfn. Þar var verkefnið kynnt formlega, aðferðafræðinni lýst og að lokum sýnt hvernig vettvangsvinna okkar fer fram. Að lokinni vettvangsvinnunni fékk hópurinn leiðsögn um starfsemi okkar og samstarfsstofnanna á Garðvegi 1. Með hópnum í för voru þau René Biasone og Ásta Kristín Davíðsdóttir frá Umhverfisstofnun, Theresa Henke frá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, og Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Starfsmenn Náttúrustofunnar og Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum fóru í gær með nemendur á þriðja ári í líffræði við Háskóla Íslands í sýnatökur á Sundin við Reykjavík. Sjóferðin er hluti af fjölbreyttu og umfangsmiklu vettvangsnámskeiði í vistfræði. Þetta er sjöunda árið sem nemendum hefur boðist að fara á sjó með okkur. Fá nemendurnir innsýn í rannsóknarvinnu okkar og fá kost á að læra réttu handtökin. Gerast nemendur í vettvangsnámskeiðinu því þáttakendur í mikilvægri vöktun á stofnbreytingum á hinum nýja landnema grjótkrabba. Nemendur fengu fínasta veður og stóðu sig með mikilli prýði. Ólafur Páll Jónsson jarðfræðingur á Náttúrustofunni hélt í kvöld áhugavert erindi í samstarfi við Þekkingarsetur Suðurnesja sem bar titilinn Hvað með eldgos? Í erindi sínu fór hann yfir eldvirkni á Reykjanesinu í aldanna rás, útskýrði atburði undanfarinna ára (og líðandi stundar), myndun bergs og nýrra jarðlaga og langtíma og skammtíma áhrif eldgosa.
Við þökkum við þeim sem hlýddu fyrir samveruna og komuna. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
November 2023
Categories |