Sextánda vöktunarár grjótkrabba í Faxaflóa er nú hafið. Náttúrustofan og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum halda utan um vöktunina. Byggist vöktunin á gildruveiðum fullorðinna krabba og eins á svifsýnatökum með háfum til að fylgjast með fjölda lirfa í uppsjó. Ljóst er á gildruveiðum að grjótkrabbinn er hvergi að gefa eftir og er sem fyrr ráðandi í afla, með yfir 99% í aflahlutdeild. Sýkingarhlutfall er sem fyrr hlutfallslega hátt og unnið er að því í samstarfi við sérfræðinga á Keldum að greina hvað henni veldur. Hér að neðan má sjá myndir úr fyrsta leiðangri þessa vöktunarárs.
0 Comments
Í vikunni lauk hinni árlegu bjargfuglavöktun Náttúrustofunnar á Suðurnesjum. Krýsuvíkurberg er í dag eina fuglabjargið á suðvesturhorninu sem fellur undir árlega vöktun og er jafnframt það langstærsta. Í ár var staðan einnig tekin sérstaklega í Eldey, Karlinum, Hafnabergi og Hólmsbergi í tengslum við landsúttekt Náttúrufræðistofnunar Íslands á bjargfuglum sem fer fram á 5-10 ára fresti. Bjargfuglavöktunin gengur þannig fyrir sig að teknar eru myndir á föstum sniðum og út frá myndunum er skráður fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og svartfugla. Einnig er talinn fjöldi svartfugla á sjó á viðkomandi stað til að fá samanburð á hlutfalli tegunda sem sjást í bjargi. Á þeim svæðum sem falla undir fasta vöktun á landinu (eins og Krýsuvíkurberg) er svo farið er aftur seinna á varptíma til að áætla varpárangur ritu. Árleg bjargfuglavöktunin fer fram víðsvegar um land í samstarfi náttúrustofa og hefur Náttúrustofa Norðausturland haft yfirumsjón með verkefninu. Í dag heimsóttu blaðamennirnir Patrícia Carvalho og Nuno Ferreira Santos frá potúgalska dagblaðinu Público Náttúrustofuna. Ástæða heimsóknarinnar var viðtal við okkar einu sönnu Joana. Viðtalið er hluti af verkefni sem styrkt er af Uppbyggingarsjóði EES og fjallar um störf vísindafólks sem upprunnið er frá Portúgal og lifir og starfar á Íslandi. Verkefnið ber yfirskriftina “Portugal and Iceland: investigating biodiversity and world changes together”.
Greinina má nálgast HÉR Í nýrri yfirlitsgrein í vísindaritinu Science of the Total Environment eru tekin saman áhrif kvikasilfurs (Hg) á sjó- og vaðfugla á norðurslóðum. Um er að ræða stórt alþjóðlegt samstarfsverkefni sem Náttúrustofan var samstarfsaðili í ásamt fjölmörgum innlendum og erlendum stofnunum. Rannsóknin leiddi í ljós að nokkrir sjófuglastofnar sýndu kvikasilfurstyrk sem fór yfir viðmiðunarmörk um eitrun, þar sem 50% einstakra fugla fóru yfir mörkin „engin skaðleg heilsuáhrif“. Um 5% allra rannsakaðra fugla voru taldir í meðallagi eða meiri hættu á eitrunaráhrifum af völdum Hg. Hins vegar voru flestir sjófuglar (95%) almennt í minni hættu á Hg eiturverkunum. Mesta Hg-mengunin kom fram hjá sjófuglum sem verpa í vestanverðu Atlantshafi og Kyrrahafi. Flestir vaðfuglar á norðurskauti sýndu lágan Hg styrk, þar sem um það bil 45% einstaklinga voru flokkaðir í engum áhættuflokkum, 2,5% í miklum áhættuflokki og enginn einstaklingur í alvarlegri hættu. Þrátt fyrir að flestir sjó- og vaðfuglar sem verpa á norðurslóðum virðist vera í minni hættu á Hg eiturverkunum, hafa nýlegar rannsóknir greint frá skaðlegum áhrifum Hg á sum heiladingulshormón, eiturverkanir á erfðaefni og æxlunargetu. Kvikasilfur virtist ekki hafa áhrif á lifun fullorðinna einstaklinga, þó verður að hafa í huga að langtímamerkingarrannsóknir sem snúa einnig að áhrifum Hg séu enn takmarkaðar. Þrátt fyrir að Hg-mengun á norðurslóðum sé talin lítil fyrir flestar fuglategundir, þá getur kvikasilfur samhliða öðrum streituvöldum eins og öðrum mengandi efnum, sjúkdómum, sníkjudýrum og loftslagsbreytingum samt valdið skaðlegum áhrifum. Nálgast má greinina með því að smella á myndina hér að neðan. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
October 2024
Categories |