Fiðrildaveiðar eru nú hafnar hjá okkur á Suðurnesjum þetta árið og munu standa yfir næstu 32 vikurnar. Náttúrustofan hefur frá árinu 2016 staðið árlega að vöktun fiðrilda í Norðurkoti. Vöktun fiðrilda hófst fyrst hér á landi árið 1995 fyrir tilstilli Náttúrufræðistofnunar Íslands. Náttúrustofur landshlutanna, hafa hver af annarri gerst þátttakendur í verkefninu í náinni samvinnu við Náttúrufræðistofnun með samstilltum aðgerðum.
Þess má geta að frá upphafi verkefnisins hafa alls fundist 40 tegundir fiðrilda og 4 tegundir vorflugna í Norðurkoti, en nánar má lesa um það í ársskýrslu stofunnar 2019.
0 Comments
Sumarið er gengið í garð og sá tími árs þegar farfuglarnir flykkjast til landsins. Reykjanesið er upplagt til fuglaskoðunar og þar er aðgengi að flestum skoðunarstöðum gott. Til fuglaskoðunar þarf lítið annað en góð föt, nesti og góðan kíki. Sjónauki á fæti og myndavél með góðri aðdráttarlinsu gera leikinn auðveldari. Við viljum benda fjölskyldum og öllum almennum náttúruunnendum að njóta útiverunnar í sumar og skoða fugla. Til að einfalda leikinn er hér meðfylgjandi eru kort (á íslensku og ensku) sem sýna helstu fuglaskoðunarstaði á Reykjanesskaga, hvar sjaldgæfari tegundir er að finna og upplýsingar um aðgengi að skoðunarstöðum. Jafnframt fylgir skýrslan Fuglastígur á Reykjanesskaga sem fjallar um fuglalíf og fuglaskoðunarstaði. Nóg er að smella á myndirnar hér að neðan til að nálgast skrárnar. Við biðjum fólk um að virða náttúruna og gæta að eftirfarandi umgengnisreglum:
• Gættu þess að trufla fuglana sem minnst. • Ekki snerta egg eða fjarlægja þau úr hreiðrum. • Ekki snerta eða taka upp unga. • Ekki brjóta jarðmyndanir eða raska þeim á annan hátt. • Hlífðu gróðri sem allra mest. • Ekki henda neinu sem þú berð með þér, losaðu þig við sorp í sorpílát. • Engin salerni eru á gönguleiðunum á Reykjanesi. Nýttu þau sem eru nálægt upphafsstað göngunnar en ef þú kemst ekki hjá því að sinna kallinu skal það gert af tillitssemi við aðra gesti. • Hvergi er drykkjarvatn að finna. Sýndu fyrirhyggju. • Ekki ferðast einn á fjöllum. Láttu vita af ferðum þínum áður, en lagt er af stað. • Hafðu með þér hlífðarfatnað. Góðir gönguskór eru mikilvægir í fjallgöngu. Nú fara fram vortalningar á körrum um land allt. Þessi árstími hentar einkar vel því á vorin eru karrar mjög áberandi, tylla sér á háa staði, hreykja sér hátt og verja sín óðul. Út frá þessum talningum er stofnvísitala rjúpnastofnsins metin. Árlega eru gengin ákveðin snið á varpsvæðum rjúpunnar og þannig er hægt að meta breytileika milli ára í stofnvistfræði hennar. Í dag fóru starfsmenn Náttúrustofunnar og Þekkingarsetursins í talningar á Reykjanesi venju samkvæmt. Að verkefninu koma fjölmargir aðilar á landsvísu en um samvinnuverkefni er að ræða og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands yfirumsjón með verkefninu Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands 2019 er nú komin út. Í skýrslunni gefur að líta fjölbreytta starfsemi stofunnar á liðnu ári. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan.
|
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
July 2024
Categories |