Á gamlársdag 2020 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar (Ensis sp.) í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fann Guðni Magnús Eiríksson líffræðingur lifandi eintak í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Ljóst er að hér er um nýjan landnema að ræða, en áður höfðu tvö eintök af fáfnisskel (Ensis magnus), fundist dauð í fjöru við Lónsfjörð árið 1957. Í millitíðinni hefur ekkert til hnífskelja spurst hér á landi. Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnar hnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams" einmitt komið. Hnífskeljar geta orðið 20 cm langar og þykja hnossgæti. Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund hefur nýlega verið lýst eða árið 2012 og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa. Flutningur sjávarlífvera af manna völdum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær áfastar skipskrokkum eða með kjölvatni skipa. Á Líffræðiráðstefnunni sem haldin var 14.-16.október var sagt frá fundi sindraskeljar hér við land, en rannsókn á tegundinni er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Anishinabek/Ontario Fisheries Resource Centre, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. Sterkar líkur eru á því að sindraskelin hafi borist til Íslands með kjölfestuvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður Ameríku, mögulega fyrir 5 til 10 árum. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskelja er því mikilvæg. Finni fólk eintök af hnífskeljum er það hvatt til að hafa samband við Náttúrustofu Suðvesturlands, [email protected].
0 Comments
Leave a Reply. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
October 2024
Categories |