Vísindaleiðangur var farinn í Eldey í dag. Leiðangurinn skipuðu sérfræðingar frá Náttúrustofu Suðvesturlands, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands auk landvarða Umhverfisstofnunar. Viðfangsefni leiðangursfólks var mæling á gliðnun og hæð eyjunnar, súlnadauði og plast í hreiðrum súlna. Mikið sást af dauðum súlum í eyjunni og var aðallega um fullorðnar súlur að ræða. Fyrirfram var vitað að töluvert plast væri í hreiðrum súla í Eldey en það fékkst staðfest eftir leiðangur Náttúrustofunnar árið 2017. Í þeim leiðangri var eyjan öll mynduð með dróna og varpstofn metinn, sást þá töluvert af plasti af drónamyndunum. Það gríðarlega magn plasts sem blasti við leiðangursfólki í dag var mun meira en búist var við. Ljóst er að plast er allsráðandi byggingarefni í hreiðri súlna í eyjunni, en aðallega er um að ræða netabúta og veiðarfæraspotta af öllum gerðum. Töluvert fannst af súlum sem drepist höfðu eftir að hafa flækt sig í plastruslinu, en ætla má að fjöldi súla drepist með þessum hætti árlega í Eldey. Auk svartbaks og silfurmáfs sáust fálki, svartþrestir og bjargdúfur - bæði á eyjunni eða á flugi við hana. Ferðin gekk vel og þökkum við landhelgisgæslunni og áhöfn TF-GNÁ kærlega fyrir öruggan flutning.
0 Comments
Leave a Reply. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
October 2024
Categories |