Í dag lauk hinni árlegu bjargfuglavöktun Náttúrustofu Suðvesturlands. Krýsuvíkurberg er í dag eina fuglabjargið á suðvesturhorninu sem fellur undir árlega vöktun og er jafnframt það langstærsta. Töluverðar sveiflur hafa verið í bjargfuglastofnum hér við land síðan vöktun hófs og oft ólíkt milli landsvæða og tegunda. Á Reykjanesskaga hafa sveiflurnar verið mestar hjá ritu. Rituungatalningar úr nýlokinni vöktun benda til óbreytts ástands frá því í fyrra en þá hafði varpárangur skyndilega versnað eftir góða fjögurra ára uppsveiflu áranna 2020-2023 (sjá meðfylgjandi mynd). Heildarniðurstöður bjargfuglatalninga munu birtast síðar þegar talið og greint hefur verið af myndum og gögn yfirfarin. Bjargfuglavöktunin gengur þannig fyrir sig að um miðjan júní eru teknar myndir á föstum sniðum og út frá myndunum er skráður fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og svartfugla. Einnig er talinn fjöldi svartfugla á sjó á viðkomandi stað til að fá samanburð á hlutfalli tegunda sem sjást í bjargi. Á þeim svæðum sem falla undir fasta vöktun á landinu (eins og Krýsuvíkurberg) er svo farið er aftur seinna á varptíma til að áætla varpárangur ritu. Árleg bjargfuglavöktunin fer fram víðsvegar um land í samstarfi náttúrustofa og hefur Náttúrustofa Norðausturland yfirumsjón með verkefninu á landsvísu.
0 Comments
Í dag kom út vísindagrein um skelsýkingu í grjótkrabba (Cancer irroratus) í vísindaritinu NeoBiota. Um nokkur tímamót er að ræða, þar sem hér er í fyrsta sinn greint frá skelsýkingu í krabbadýri við Íslandsstrendur. Rannsóknin var unnin í samstarfi Náttúrustofu Suðvesturlands, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Rannsóknadeildar fisksjúkdóma á Keldum og Ross University School of Veterinary Medicine.
Greinin lýsir umfangsmikilli rannsókn sem fór fram í Hvalfirði á árunum 2017 til 2023, þar sem 5.818 einstaklingar af tegundinni voru skoðaðir. Niðurstöðurnar sýna að skelsýkingin jókst hratt eða úr 47% árið 2017 í 85% árið 2023. Sýkingin veldur niðurbroti á skel krabbans og tengist bæði kítínbrjótandi bakteríum og svepplíkum sjúkdómsvaldi. Greining sýna úr sárum sýndi blandaðar bakteríusýkingar úr níu tegundum auk svepplíkrar örveru sem fannst í öllum sýktum dýrum. Þetta bendir til þess að sýkingin stafi af samverkandi áhrifum. Orsakir þess að faraldur af þessari stærðargráðu hafi komið upp eru ekki þekktar, en niðurstöðurnar vekja áhyggjur og krefjast áframhaldandi rannsókna. Greinina má nálgast með því að smella á myndina. Á dögunum kom út grein um stöðu strandsvæðarannsókna á norðurslóðum í vísindaritinu Trend in Ecology & Evolution. Joana Micael sérfræðingur á Náttúrustofunni er meðal greinarhöfunda, en greinin er afurð alþjóðlegs vinnuhóps Arc-Bon (Arctic Coastal Biodiversity Observation Network) sem Náttúrustofa Suðvesturlands er stofnaðili að.
Lausleg þýðing ágrips: "Líffræðileg fjölbreytni við strendur norðurskautsins stendur frammi fyrir vaxandi ógnum af starfsemi manna og loftslagsbreytinga. Áhrifin á líffræðilegan fjölbreytileika eru enn illa þekkt, sem hindrar aðgerðir sem miða að því að draga úr áhrifum á norðuskautinu. Norðurskautið nær yfir meira en fimmtung af strandlengjum heimsins og líffræðilegur fjölbreytileiki strandsvæða þar verður í auknum mæli fyrir áberandi áhrifum loftslagsbreytinga og annarra áhrifa af mannavöldum. Í greininni eru kynntar niðurstöður úttektar sem nýtast munu til að bregðast við núverandi þekkingareyðum vegna áhrifa af mannalegri starfsemi. Á það við um allt frá auknum siglingum og nýtingu af öllu tagi - til afleiðinga loftslagsbreytinga s.s. hækkandi hitastig í ferskvatni, bráðnun jökla og leysingavatn. Spár um vistfræðilegar breytingar, dreifingu tegunda og áhrif af mannavöldum á strandsvæði á norðurslóðum eru takmarkaðar vegna skorts á gögnum um líffræðilegan fjölbreytileika og skorts á langtímavöktunarverkefnum. Til að fylla í núverandi þekkingareyður þarf samræmt alþjóðlegt átak og staðlaðar tilraunir þvert á hin fjölbreyttu vistkerfi sem einkenna norðurslóðir. Með því móti verður unnt að skilja ytri áhrif á vistfræðileg ferli og gera spár um líffræðilegan fjölbreytileika á norðurslóðum á norðurslóðum sem aðlögunar- og mótvægisaðferðir geta byggt á." Greinina má nálgast með því að smella á myndina. Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands 2024 er nú komin út. Í skýrslunni gefur að líta fjölbreytta starfsemi stofunnar á liðnu ári. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan.
Ársfundur vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins um flutning og landnám framandi tegunda (ICES WGITMO) var haldinn í háskólanum í Maryland 3.–5. mars síðastliðinn. Sem fyrr var einn fundardagur sameininlegur með vinnuhópi ICES um kjölfestuvatn og aðrar flutningsleiðir framandi tegunda (ICES WGBOVS) of fulltrúa Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO). Sérfræðinganefnd ITMO fór yfir stöðu mála í heiminum og þau samstarfsverkefni sem unnin eru innan hópsins. Áhersla var lögð á mikilvægi löggjafar og fræðslu í baráttunni við útbreiðslu framandi tegunda. Sindri Gíslason forstöðumaður Náttúrustofunnar kynnti stöðu mála á Íslandi og þau rannsóknverkefni sem unnið er að hér á landi. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist er ljóst að mikið verk er enn fyrir höndum á heimsvísu. Flutningur framandi tegunda er eitt af stærstu umhverfisvandamálum heimsins í dag og skeytingaleysi gagnvart vandamálinu er enn of almennt. Þann 29. desember 2024 var farinn rannsóknarleiðangur í Eldey. Leiðangurinn var skipaður starfsfólki frá Náttúrustofu Suðvesturlands, Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun. Markmið leiðangursins var margþætt og fólst m.a. í að safna frekari upplýsingum um plastmengun, fugladauða og gliðnun eyjunnar sem og athuga með jarðskjálfavöktunarbúnað sem settur var upp af Veðurstofunni í fyrra. Leiðangurinn gekk vel fyrir sig og leiðangursfólk fékk hið sæmilegasta veður, bjartviðri stinningsgolu og -8°C. Þökkum við Landhelgisgæslunni kærlega fyrir að koma okkur heilum og höldnum til og frá eyjunni. Grein um tegundaflutning með sjávarrusli kom út í dag í vísindaritinu Ocean and Coastal Research. Um er að ræða metnaðarfullt rannsóknarverkefni sem Holly I.A. Solloway vann í meistaranámi sínu við Háskólasetur Vestfjarða með leiðbeinendum sínum þeim Joana Micael og Sindra Gíslasyni hjá Náttúrustofu Suðvesturlands.
Meðfylgjandi er þýðing á ágripi greinarinnar: "Rusl í hafi er orðið alþjóðlegt umhverfisvandamál með vaxandi vísbendingum um áhrif þess á höf og strandsvæði heimsins. Í þessari rannsókn er sjónum beint að sjávarrusli sem flutningsmáta fyrir ásetutegundir (e. fouling species) sem og dreifingu og samsetningu þess á þremur landssvæðum - Suðvesturlandi, Vestfjörðum og Norðausturlandi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að plastrusl var algengasta gerðin af sjávarrusli hvort sem það var með ásetur eða ekki. Uppruni þess rusls sem fannst á ströndum var aðallega af landrænum uppruna, en það rusl sem hafði ásetur var aðallega upprunnið úr sjávartengdum iðnaði. Á þeim átta rannsóknarsvæðum sem skoðuð voru fundust yfir 79.000 einstaklingar og 92 tegundir á rusli í fjörum. Á Suðvesturlandi var bæði hæsti þéttleiki rusls og mest af ásetutegundum á rusli. Hins vegar var mest fjölbreytni og tegundajafnræði á Vestfjörðum. Ásetutegundir úr alls sex fylkingunum voru greindar, þ.e. liðormar, liðdýr, mosadýr, seildýr, holdýr og lindýr. Holdýr voru algengustu áseturnar á suðvestur- og norðaustursvæðum. Hins vegar voru liðormar með hæsta ásetuhlutfallið á Vestfjörðum. Tölfræðileg marktæk tengsl voru einnig greind á milli: tegundaauðgi og svæða, þéttleika og svæða, efnisgerðar og yfirborðsgrófleika- og þykktar. Niðurstöðurnar sýna hvernig tegundir geta fluttst með sjávarrusli milli svæða. Undirstrikar rannsókn þessi þörfina fyrir áframhaldandi vöktun á sjávarrusli við Ísland og mikilvægi þess að innleiða árangursríkrar stjórnunaraðferðir til að draga úr áhrifum þess á lífríki sjávar og stranda." Greinin er í opinni útgáfu og má nálgast HÉR. Grein um vöktun framandi tegunda í höfnum kom út í dag í vísindaritinu Journal of Coastal Conservation í vikunni. Um nokkur tímamót er að ræða þar sem formleg vöktun sem þessi á framandi tegundum í höfnum hefur aldrei verið framkæmd hér á landi og er hér greint frá niðurstöðum vöktunar í átta höfnum allt í kringum landið.
Lausleg þýðing ágrips: "Framandi tegundir hafa mikil áhrif á sjávarvistkerfi jarðar. Í þessari rannsókn okkar skoðum við hversu algengar framandi tegundir eru í íslenskum höfnum með áherslu á tegundaauðgi og samfélagssamsetningu ásetutegunda (e. fouling species). Með því að nota sérútbúnar setplötur gátum við sýnt fram á ráðandi stöðu framandi tegunda, sérstaklega tegundir möttuldýra, sem er í takti við alþjóðlega þróun. Ríkjandi tegundir voru mismunandi frá ári til árs, sem líklega ræðst af umhverfisaðstæðum, útbreiðsluþrýstingi og eins þeim tegundum sem þegar hafa numið land. Aukning sjóflutninga og siglinga almennt hefur verið mikil, einkum á suðvesturland, sem aukið hefur til muna líkur á því að hingað berist nýjar framandi tegundir og nemi land. Ofan á það geta innanlandssiglingar stuðlað að enn frekari útbreiðslu framandi tegunda milli landshluta. Sex tegundir framandi möttuldýra voru greindar á setplötum auk þriggja áður óþekktra mosadýrategunda, sem undirstrikar nauðsyn enn frekari líflandfræðilegra rannsókna. Dultegundir, þ.e. tegundir með óþekktan landfræðilegan uppruna eru stór hluti ásetutegunda hér á landi, sem skapar miklar áskoranir við að skilja líflandafræði og landnámsvistfræði þeirra. Niðurstöður okkar leggja áherslu á flókið samspil ásetusamfélaga í íslenskum höfnum og undirstrika þörfina fyrir áframhaldandi vöktun og bætta stjórnun á tímum mikilla umhverfisbreytingar og flutningi framandi tegunda." Greinina má nálgast með því að smella á myndina. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
July 2025
Categories |