Grein um tegundaflutning með sjávarrusli kom út í dag í vísindaritinu Ocean and Coastal Research. Um er að ræða metnaðarfullt rannsóknarverkefni sem Holly I.A. Solloway vann í meistaranámi sínu við Háskólasetur Vestfjarða með leiðbeinendum sínum þeim Joana Micael og Sindra Gíslasyni hjá Náttúrustofu Suðvesturlands.
Meðfylgjandi er þýðing á ágripi greinarinnar: "Rusl í hafi er orðið alþjóðlegt umhverfisvandamál með vaxandi vísbendingum um áhrif þess á höf og strandsvæði heimsins. Í þessari rannsókn er sjónum beint að sjávarrusli sem flutningsmáta fyrir ásetutegundir (e. fouling species) sem og dreifingu og samsetningu þess á þremur landssvæðum - Suðvesturlandi, Vestfjörðum og Norðausturlandi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að plastrusl var algengasta gerðin af sjávarrusli hvort sem það var með ásetur eða ekki. Uppruni þess rusls sem fannst á ströndum var aðallega af landrænum uppruna, en það rusl sem hafði ásetur var aðallega upprunnið úr sjávartengdum iðnaði. Á þeim átta rannsóknarsvæðum sem skoðuð voru fundust yfir 79.000 einstaklingar og 92 tegundir á rusli í fjörum. Á Suðvesturlandi var bæði hæsti þéttleiki rusls og mest af ásetutegundum á rusli. Hins vegar var mest fjölbreytni og tegundajafnræði á Vestfjörðum. Ásetutegundir úr alls sex fylkingunum voru greindar, þ.e. liðormar, liðdýr, mosadýr, seildýr, holdýr og lindýr. Holdýr voru algengustu áseturnar á suðvestur- og norðaustursvæðum. Hins vegar voru liðormar með hæsta ásetuhlutfallið á Vestfjörðum. Tölfræðileg marktæk tengsl voru einnig greind á milli: tegundaauðgi og svæða, þéttleika og svæða, efnisgerðar og yfirborðsgrófleika- og þykktar. Niðurstöðurnar sýna hvernig tegundir geta fluttst með sjávarrusli milli svæða. Undirstrikar rannsókn þessi þörfina fyrir áframhaldandi vöktun á sjávarrusli við Ísland og mikilvægi þess að innleiða árangursríkrar stjórnunaraðferðir til að draga úr áhrifum þess á lífríki sjávar og stranda." Greinin er í opinni útgáfu og má nálgast HÉR.
0 Comments
Grein um vöktun framandi tegunda í höfnum kom út í dag í vísindaritinu Journal of Coastal Conservation í vikunni. Um nokkur tímamót er að ræða þar sem formleg vöktun sem þessi á framandi tegundum í höfnum hefur aldrei verið framkæmd hér á landi og er hér greint frá niðurstöðum vöktunar í átta höfnum allt í kringum landið.
Lausleg þýðing ágrips: "Framandi tegundir hafa mikil áhrif á sjávarvistkerfi jarðar. Í þessari rannsókn okkar skoðum við hversu algengar framandi tegundir eru í íslenskum höfnum með áherslu á tegundaauðgi og samfélagssamsetningu ásetutegunda (e. fouling species). Með því að nota sérútbúnar setplötur gátum við sýnt fram á ráðandi stöðu framandi tegunda, sérstaklega tegundir möttuldýra, sem er í takti við alþjóðlega þróun. Ríkjandi tegundir voru mismunandi frá ári til árs, sem líklega ræðst af umhverfisaðstæðum, útbreiðsluþrýstingi og eins þeim tegundum sem þegar hafa numið land. Aukning sjóflutninga og siglinga almennt hefur verið mikil, einkum á suðvesturland, sem aukið hefur til muna líkur á því að hingað berist nýjar framandi tegundir og nemi land. Ofan á það geta innanlandssiglingar stuðlað að enn frekari útbreiðslu framandi tegunda milli landshluta. Sex tegundir framandi möttuldýra voru greindar á setplötum auk þriggja áður óþekktra mosadýrategunda, sem undirstrikar nauðsyn enn frekari líflandfræðilegra rannsókna. Dultegundir, þ.e. tegundir með óþekktan landfræðilegan uppruna eru stór hluti ásetutegunda hér á landi, sem skapar miklar áskoranir við að skilja líflandafræði og landnámsvistfræði þeirra. Niðurstöður okkar leggja áherslu á flókið samspil ásetusamfélaga í íslenskum höfnum og undirstrika þörfina fyrir áframhaldandi vöktun og bætta stjórnun á tímum mikilla umhverfisbreytingar og flutningi framandi tegunda." Greinina má nálgast með því að smella á myndina. Á vordögum slóst Arnhildur Hálfdánardóttir dagskrárgerðarkona á RÚV í för með starfsfólki Náttúrustofunnar í vöktun á sindraskel í Hvalfirði. Tilefnið var söfnun efnis fyrir þáttaröð tileinkaða framandi tegundum.
Í dag kom út 5. þáttur sem tileinkaður er framandi tegundum í sjó og er þar rætt um tvo af nýjustu landnemunum, sindraskel og svartserk. Viðtalið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan: Grein um hinn framandi sjávarsnigil svartserk kom út í dag í vísindaritinu Journal of the Marine Biological Association of the United Kingdom, en um er að ræða samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Náttúrustofu Suðvesturlands.
Eggjamassar úr óþekktu lindýri hafa fundist á Suðvesturlandi Ísland síðan 2020, en það var ekki fyrr en í ágúst 2023 sem fullorðnu lífverunni sjálfri var safnað. Formfræðileg greining á bæði fullorðnum einstaklingum og eggjamössum bentu til að um væri að ræða tegundina Melanochlamys diomedea, en tegundin hefur fengið nafnið svartserkur á íslensku. Þessi greining var svo endanlega staðfest erfðafræðilega með COI, H3 og 16S rRNA vísum og jafnframt landnám nýrrar tegundar í Norður-Atlantshafi. Meðlimir Melanochlamys ættkvíslarinnar hafa til þessa aðallega fundist í Indó-Kyrrahafssvæðinu og Kyrrahafinu, aðeins ein tegund er þekkt þar utan og finnst á Madeiraeyjum, Kanaríeyjum og Cape Verde í Atlantshafi. Þekkt náttúruleg útbreiðsla sjávarsnigilsins svartserks nær frá Alaska til Kaliforníu Kyrrahafsmegin í Norður-Ameríku og lifir að jafnaði í fínkornóttum botni í fjöru og neðan hennar. Ekki er vitað hvernig tegundin barst til Íslands. Líklegast þykir þó að tegundin hafi borist hingað með sjóflutningum, annað hvort með kjölfestuvatni eða sem áseta á skipum. Greinina má nálgast með því að smella á myndina. Í dag lauk hinni árlegu bjargfuglavöktun Náttúrustofu Suðvesturlands. Krýsuvíkurberg er í dag eina fuglabjargið á suðvesturhorninu sem fellur undir árlega vöktun og er jafnframt það langstærsta. Bjargfuglavöktunin gengur þannig fyrir sig að um miðjan júní eru teknar myndir á föstum sniðum og út frá myndunum er skráður fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og svartfugla. Einnig er talinn fjöldi svartfugla á sjó á viðkomandi stað til að fá samanburð á hlutfalli tegunda sem sjást í bjargi. Á þeim svæðum sem falla undir fasta vöktun á landinu (eins og Krýsuvíkurberg) er svo farið er aftur seinna á varptíma til að áætla varpárangur ritu. Árleg bjargfuglavöktunin fer fram víðsvegar um land í samstarfi náttúrustofa og hefur Náttúrustofa Norðausturland haft yfirumsjón með verkefninu. Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins gefur að líta grein um sindraskel við Ísland, en þau Sindri Gíslason og Joana Micael starfsfólk stofunnar eru meðal höfunda greinarinnar.
Greinin segir frá fyrstu staðfestu eintökum sindraskeljar hér við land og útbreiðslu tegundarinnar. Fundurinn er um margt áhugaverður því tegundin hefur hingað til aðeins fundist á Nýfundnalandi, en þar var tegundinni fyrst lýst árið 2012. Hér er því um fyrsta fund utan náttúrulegra heimkynna tegundarinnar. Sindraskelin hefur að öllum líkindum borist til Íslands á lirfustigi með kjölfestuvatni skipa. Miðað við stærð eintaka sem fundust strax í upphafi er líklegt að tegundin hafi borist til landsins a.m.k. 5-10 árum áður eða á árunum 2010-2015. Í ljósi þess að tegundin er farin að fjölga sér og dreifast má gera ráð fyrir að hér sé nú lífvænlegur stofn sem komi til með að dreifast hratt með ströndum landsins. Greinin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunar, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. En þess má geta að Náttúrustofa Suðvesturlands hefur umsjón með vöktun og rannsóknum sindrskelja við Ísland og má lesa betur um verkefnið HÉR. Við hvetjum svo fólk eindregið til að kynna sér Náttúrufræðinginn en nýjasta hefti hans hverju sinni fæst í lausasölu í öllum bókabúðum Pennans Eymundsson. Sjón er sögu ríkari. Átjánda vöktunarár grjótkrabba í Faxaflóa er nú hafið. Náttúrustofan og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum halda utan um vöktunina. Byggist vöktunin á gildruveiðum fullorðinna krabba og eins á svifsýnatökum með háfum til að fylgjast með fjölda lirfa í uppsjó. Ljóst er á gildruveiðum að grjótkrabbinn er hvergi að gefa eftir og er sem fyrr ráðandi í afla, með 97% aflahlutdeild. Hér að neðan má sjá myndir úr fyrsta leiðangri þessa vöktunarárs. Um liðna helgi var farið í merkingarleiðangur á vegum Seatrack verkefnisins í Melrakkaey á Breiðafirði. Melrakkey er friðlýst smáeyja út af Grundarfirði og nýtur verndar út af fuglalífi sínu, þ.e. sem einstakt varpland hvítmáfs og svartbaks. Óheimilt er að fara í eyna án leyfis Umhverfisstofnunar og er eyjan jafnframt innan verndarsvæðis Breiðafjarðar sem verndað er með sér lögum. Markmið leiðangursins var að setja út staðsetningartæki á hvítmáfa og toppskarfa. En fylgst hefur verið með tegundunum frá 2015 í eyjunni þegar Náttúrustofan hóf þar fyrst rannsóknir á vegum Seatrack. Í ár voru settir út 16 staðsetningartæki á toppskarfa af þremur mismunandi gerðum og GPS senditæki á fimm hvítmáfa. Leiðangurinn gekk með eindæmum vel og náðist að setja út öll tækin. Um ákveðin tímamót var líka að ræða þar sem þetta var í fyrsta skipti sem GPS senditæki eru sett á máfa hér á landi. Fram að þessu hafa dægurritar (e. geolocator) alfarið verið notaðir, en þeir eru mun ónákvæmari. Því verður nú í fyrsta skipti hægt að fylgjast með hegðun og fari þeirra máfategunda sem merktar verða árið um kring með mun meiri nákvæmni en áður hefur verið mögulegt. Leiðangurinn skipuðu þau Sunna Björk Ragnarsdóttir (Náttúrufræðistofnun), Gunnar Þór Hallgrímsson (Háskóli Íslands) og Sindri Gíslason (Náttúrustofa Suðvesturlands) Verkefnið er í dag unnið í góðu samstarfi þessara þriggja stofnanna, en til gamans má nefna að bæði Sunna og Gunnar eru fyrrum starfsmenn Náttúrustofunnar og voru það þegar verkefnið var sett á laggirnar.. Nánar má lesa um Seatrack verkefnið HÉR. Í dag þann 22. maí er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni.
Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða tilveru okkar og framtíðar. Verndun hennar er eitt mikilvægasta verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir því líffræðileg fjölbreytni er grundvöllur lífsgæða okkar. Ótal auðlindir og náttúrulegir ferlar sem okkur eru lífsnauðsynlegir byggjast á að hún sé til staðar. Því miður er staða líffræðilegrar fjölbreytni á jörðinni í dag alvarleg. Ástæðan er að henni hefur hnignað hratt á sl. öld fyrir tilstuðlan athafna mannsins s.s. með eyðingu náttúrulegra búsvæða, útbreiðslu framandi ágengra tegunda, mengun og ofnýtingu náttúrunnar. Áskoranir mannskyns í dag snúa því að því að vernda líffræðilega fjölbreytni. Af þeirri ástæðu tileinkaði alsherjarþing Sameinuðu þjóðana árið 2000, 22. maí dag líffræðilegrar fjölbreytni. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um heim allan til að auka fræslu og vitund almennings um líffræðilega fjölbreytni. Til hamingju með daginn og stöndum vörð um líffræðilega fjölbreytni! |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
November 2024
Categories |