Arnhildur Hálfdánardóttir dagskrárgerðarkona á RÚV slóst í för með starfsfólki Náttúrustofunnar í vöktun á sindraskel í Hvalfirði í dag. Meira um það síðar.
0 Comments
Fiðrildaveiðar eru nú hafnar hjá okkur á Suðurnesjum þetta árið og munu standa yfir næstu 30 vikurnar. Náttúrustofan hefur frá árinu 2016 staðið árlega að vöktun fiðrilda í Norðurkoti. Vöktun fiðrilda hófst fyrst hér á landi árið 1995 fyrir tilstilli Náttúrufræðistofnunar Íslands. Náttúrustofur landshlutanna, hafa hver af annarri gerst þátttakendur í verkefninu í náinni samvinnu við Náttúrufræðistofnun með samstilltum aðgerðum.
Þess má geta að frá upphafi verkefnisins hafa alls fundist 47 tegundir fiðrilda og sex tegundir vorflugna í Norðurkoti, en nánar má lesa um það í ársskýrslu Náttúrustofunnar fyrir árið 2023. Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands 2023 er nú komin út. Í skýrslunni gefur að líta fjölbreytta starfsemi stofunnar á liðnu ári. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan.
Í liðinni viku tók Náttúrustofa Suðvesturlands þátt í vinnustofu BIODICE um líffræðilegan fjölbreytileika. Markmið vinnustofunnar var að greina og ræða málefni líffræðilegrar fjölbreytni í víðu samhengi eins og hún birtist í íslenskri stjórnsýslu. Viðfangsefnið tengist sérstaklega verkefninu Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda, þar sem meta á stöðu mála varðandi innleiðingu stefnu samnings Sameinuðu Þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni 2022, Global Biodiversity Framework (GBF), á Íslandi, Danmörku og Finnlandi.
Vinnustofan tókst með eindæmum vel, en um var að ræða fyrstu vinnustofuna af nokkrum sem tengjast munu verkefninu Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda. Það er okkur ánægja að segja frá því að Náttúrustofan er þátttakandi í EULVA verkefninu (European Ulva Taxonomy Initiative). Um er að ræða stórt samevrópskt verkefni sem miðar að því að gera ítarlegt mat á fjölbreytileika grænþörunga innan Ulva ættikvíslarinnar á evrópskan mælikvarða, byggt á erfðafræðilegum gögnum. Ulva er án efa ein algengasta, útbreiddasta og þekktasta ættkvísl þangs í heiminum. Eins og staðan er í dag á heimsvísu er enn verulegur þekkingarskortur á raunverulegum tegundafjölbreytileika innan ættkvíslarinnar, á það jafnframt við á vel könnuðum svæðum eins og í Evrópu. Á meðfylgjandi mynd má sjá þáttökulönd í verkefninu. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér: https://sites.google.com/view/eulva/ Nemendur á fjórða ári í arkitektúr við Listaháskóla Íslands ásamt kennara sínum, Hlyni Axelssyni, heimsóttu Náttúrustofuna í dag. Starfsfólk stofunnar þau Ólafur Páll og Sigríður Vala tóku á móti hópnum og kynntu þeim starfsemi hennar sem og náttúrufar Reykjanesskagans. Þessi nemendahópur mun hafa aðstöðu í Reykjanesbæ þessa önn allt fram á vor. Nemendurnir munu kynna sér bæinn og náttúru Reykjaness og móta í kjölfarið úr því verkefni. Verður spennandi að sjá hver afraksturinn verður. Við þökkum þessum flotta hóp fyrir komuna og óskum þeim góðs gengis við verkefni sín á önninni. Á forsíðu nýjasta tölublaðs Fiskifrétta prýðir sindraskel. Í blaðinu er svo umfjöllun um tegundina og viðtöl um hana við þá Karl Gunnarsson á Hafrannsóknastofnun og Sindra Gíslason hjá Náttúrustofu Suðvesturlands. Fjallað er um landnám tegundarinnar, mögulegar nytjar og ógnir framandi tegunda við okkar viðkvæmu vistkerfi.
Í Samfélaginu á Rás 1 í dag þann 20.mars ræddu þau Arnhildur Hálfdánardóttir og Guðumundur Pálsson um hinn nýja landnema sindraskel við Sindra Gíslason forstöðumanni Náttúrustofunnar.
Viðtalið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan: Ný grein um stöðu verklags við innflutning skrautfiska og vatnadýra til Íslands og mögulega ógn10/17/2023 Landnám framandi tegunda er undir áhrifum af mannlegum athöfnum og mótast í takti við þær. Viðskipti með lífverur sem fela í sér flutning þeirra, sem getur leitt til landnáms þeirra á nýjum svæðum, teljast til þessara athafna. Í alþjóðaverslun skrautfiska og vatnadýra eru þúsundir tegunda fluttar um heim allann og því er hættan fyrir hendi á að óæskilegum lífverum gæti verið sleppt í vistkerfin með skaðlegum vistfræðilegum og efnahagslegum áhrifum.
Til að kanna stöðuna á Íslandi var úrval gæludýraverslana á skrautfiskum og vatnadýrum skoðað og eins það starfsumhverfi sem þeim er búið m.t.t. laga. Spurningalisti sem lagður var fyrir eigendur gæludýraverslana leiddi í ljós að alls eru 1,275 tegundir sjávardýra í boði fyrir áhugafólk um skrautfiska og vatnadýr á Íslandi. Meðal þeirra eru 134 sem tilkynntar hafa sem framandi tegundir í öðrum löndum og átta þeirra sem flokkast sem ágengar. Þó að veðurfarslega sé töluverður munur á hita milli uppruna- og viðtakaumhverfis þessara tegunda, þá útilokar það ekki möguleika sumra þeirra til að fjölga sér við strendur Íslands. Að auki eru 73 tegundir taldar í yfirvofandi hættu (NT), í nokkurri hættu (VU) eða í hættu (EN) á válista Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Þrátt fyrir að á Íslandi sé löggjöf um innflutning á gæludýrum, þar á meðal skrautfiskum og vatnadýrum, er engum upplýsingum safnað af tollayfirvöldum um tegundir sem verslað er með (tegund/fjöldi). Núverandi staða hvetur til úrbóta á löggjöf og reglugerðum um búrfiskaiðnaðinn hér á landi. Stjórnunaráætlanir eru aðkallandi og ættu að fela í sér kerfisbundna upplýsingasöfnun og fræðsluherferðir sem miða að því að draga úr hugsanlegri losun allra óæskilegra lífvera út í umhverfið. Tekið skal fram að ekki er við gæludýraverslanir að sakast, vandamálið er óskýrt lagaumhverfi á Íslandi og skortur á eftirliti stjórnvalda með innflutningi. Greinina má nálgast með því að smella á myndina. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
November 2024
Categories |