Í vikunni lauk hinni árlegu bjargfuglavöktun Náttúrustofunnar á Suðurnesjum. Krýsuvíkurberg er í dag eina fuglabjargið á suðvesturhorninu sem fellur undir árlega vöktun og er jafnframt það langstærsta. Í ár var staðan einnig tekin sérstaklega í Eldey, Karlinum, Hafnabergi og Hólmsbergi í tengslum við landsúttekt Náttúrufræðistofnunar Íslands á bjargfuglum sem fer fram á 5-10 ára fresti. Bjargfuglavöktunin gengur þannig fyrir sig að teknar eru myndir á föstum sniðum og út frá myndunum er skráður fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og svartfugla. Einnig er talinn fjöldi svartfugla á sjó á viðkomandi stað til að fá samanburð á hlutfalli tegunda sem sjást í bjargi. Á þeim svæðum sem falla undir fasta vöktun á landinu (eins og Krýsuvíkurberg) er svo farið er aftur seinna á varptíma til að áætla varpárangur ritu. Árleg bjargfuglavöktunin fer fram víðsvegar um land í samstarfi náttúrustofa og hefur Náttúrustofa Norðausturland haft yfirumsjón með verkefninu.
0 Comments
Í dag heimsóttu blaðamennirnir Patrícia Carvalho og Nuno Ferreira Santos frá potúgalska dagblaðinu Público Náttúrustofuna. Ástæða heimsóknarinnar var viðtal við okkar einu sönnu Joana. Viðtalið er hluti af verkefni sem styrkt er af Uppbyggingarsjóði EES og fjallar um störf vísindafólks sem upprunnið er frá Portúgal og lifir og starfar á Íslandi. Verkefnið ber yfirskriftina “Portugal and Iceland: investigating biodiversity and world changes together”.
Greinina má nálgast HÉR Í nýrri yfirlitsgrein í vísindaritinu Science of the Total Environment eru tekin saman áhrif kvikasilfurs (Hg) á sjó- og vaðfugla á norðurslóðum. Um er að ræða stórt alþjóðlegt samstarfsverkefni sem Náttúrustofan var samstarfsaðili í ásamt fjölmörgum innlendum og erlendum stofnunum. Rannsóknin leiddi í ljós að nokkrir sjófuglastofnar sýndu kvikasilfurstyrk sem fór yfir viðmiðunarmörk um eitrun, þar sem 50% einstakra fugla fóru yfir mörkin „engin skaðleg heilsuáhrif“. Um 5% allra rannsakaðra fugla voru taldir í meðallagi eða meiri hættu á eitrunaráhrifum af völdum Hg. Hins vegar voru flestir sjófuglar (95%) almennt í minni hættu á Hg eiturverkunum. Mesta Hg-mengunin kom fram hjá sjófuglum sem verpa í vestanverðu Atlantshafi og Kyrrahafi. Flestir vaðfuglar á norðurskauti sýndu lágan Hg styrk, þar sem um það bil 45% einstaklinga voru flokkaðir í engum áhættuflokkum, 2,5% í miklum áhættuflokki og enginn einstaklingur í alvarlegri hættu. Þrátt fyrir að flestir sjó- og vaðfuglar sem verpa á norðurslóðum virðist vera í minni hættu á Hg eiturverkunum, hafa nýlegar rannsóknir greint frá skaðlegum áhrifum Hg á sum heiladingulshormón, eiturverkanir á erfðaefni og æxlunargetu. Kvikasilfur virtist ekki hafa áhrif á lifun fullorðinna einstaklinga, þó verður að hafa í huga að langtímamerkingarrannsóknir sem snúa einnig að áhrifum Hg séu enn takmarkaðar. Þrátt fyrir að Hg-mengun á norðurslóðum sé talin lítil fyrir flestar fuglategundir, þá getur kvikasilfur samhliða öðrum streituvöldum eins og öðrum mengandi efnum, sjúkdómum, sníkjudýrum og loftslagsbreytingum samt valdið skaðlegum áhrifum. Nálgast má greinina með því að smella á myndina hér að neðan. ![]() Grein okkar Establishment and proliferation under climate change: temperate tunicates in south-western Iceland birtist í vísindaritinu Marine and Freshwater Research í dag.
Greinin fjallar um tvær tegundir framandi möttuldýra sem nýlega hafa numið hér land, þ.e. stjörnumöttul og hlaupskorpumöttul. Báðar tegundirnar eru þekktir skaðvaldar víða um heim og því brýnt að skilja hvernig þær hegða sér í nýjum heimkynnum á Íslandi. Tímgun tegundanna var skoðuð yfir 12 mánaða tímabil og egg og lirfur þeirra taldar. Nú liggur því fyrir gott mat á því hvernig tímgun tegundanna tveggja er á ársgrundvelli. Þetta eru sérlega mikilvægar upplýsingar ef stjórnvöld eða aðrir hagsmunaaðilar hyggjast t.d. ráðast í mótvægisaðgerðir. Þá liggur fyrir hvenær árs vænlegast er til árangurs að ráðast í aðgerðir sem miða að því að uppræta eða hamla frekari útbreiðslu þessara framandi tegunda. Áhugasamir geta séð myndir og þekkta útbreiðslu tegundanna við Ísland hér. Nálgast má greinina með því að smella á myndina hér að neðan: Karratalningar fara nú fram um land allt. Þessi árstími hentar einkar vel því á vorin eru karrar mjög áberandi, tylla sér á háa staði, hreykja sér hátt og verja sín óðul. Út frá þessum talningum er stofnvísitala rjúpnastofnsins metin. Gengin eru ákveðin snið á varpsvæðum rjúpunnar og þannig er hægt að meta breytileika milli ára í stofnvistfræði hennar. Í gær lauk talningum Náttúrustofunnar á Reykjanesi. Að verkefninu koma fjölmargir aðilar á landsvísu en um samvinnuverkefni er að ræða og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands yfirumsjón með verkefninu. Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands 2021 er nú komin út. Í skýrslunni gefur að líta fjölbreytta starfsemi stofunnar á liðnu ári. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan.
Í Samfélaginu á Rás 1 þann 24.mars fór Guðumundur Pálsson yfir ýmislegt er viðkemur grjótkrabba og framandi tegundum með Sindra Gíslasyni.
Þáttinn má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan. Ljósop í samvinnu við KAMfilm hafa framleitt 6 stutta þætti, hver um 10 mínútur að lengd sem fjalla um áhrif loftlagsbreytinga á sex mismunandi hluta af náttúru Íslands (gróðurfar, fuglar, spendýr, smádýr, vatnalíf og framandi ágengar tegundir). Eru þeir ætlaðir til kennslu og almennrar fræðslu. Þættirnir eru unnir með styrk frá Loftlagssjóði og með aðstoð og í samvinnu við Náttúrufræðistofnun. Hér að neðan má sjá þáttinn um framandi ágengar tegundir, en meðal þeirra sérfræðinga sem rætt er við þar eru þau Joana og Sindri starfsfólk Náttúrustofunnar. |
Náttúrustofa SuðvesturlandsFréttir af daglegri starfsemi stofunnar Archives
December 2022
Categories |